Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Leikur án orða

Höfundur:

Elfar

Leikur án orða er látbragðsleikur eftir Samuel Beckett sem hann samdi að beiðni Deryk Mendel dansara. Verkið samdi hann á frönsku árið 1956 og nefndi Acte sans paroles 1 en þýddi síðan sjálfur yfir á ensku og nefndi Act Without Words 1. Frændi skáldsins John Beckett samdi tónlist sérstaklega fyrir verkið en þeir áttu eftir að vinna saman síðar að útvarpsleiknum Words and Music. Leikur án orða var frumsýndur 3. apríl 1957 í Royal Court leikhúsinu í London ásamt öðru verki Becketts Endatafl.

Leikur án orða er lábragðsleikur sem gerist í eyðimörk sem í fyrstu er einsog nafnið gefur til kynna alveg auð. Í upphafi leiks er manni kastað afturábak inná sviðið. Meðan hann situr þar aleinn og skoðar umhverfið heyrist flaut frá hægri. Að sjálfsögðu tekur hann því sem svo að það sé verið að flauta á sig eða öllu heldur kalla á sig og gengur því til hægri en honum er umsvifalaust kastað aftur til baka. Sama staða að nýju. Nú er flautað frá vinstri. Hann upp og þangað en allt endurtekur sig einsog áður. Maðurinn getur ekkert annað gert en setið og skoðað hendur sínar. Allt í einu kemur tré niðrúr loftinu og það er tilkynnt með flauti einsog áður. Greinar trjánna veita skjól fyrir sólinni og því fer maðurinn þangað. Enn skoðar hann hendur sínar og þá er flautað og maðurinn kemur auga á skæri tekur þau upp og byrjar að klippa neglurnar sínar. Nú fer smátt og smátt að fjölga hlutunum í eyðimörkinni. Þrír mismunandi stórir kubbar síga niðrúr loftinu og reypi stuttu síðar. Loks sígur niður úr loftinu karafla með áföstum miða sem á stendur Vatn.  Nú tekur við mikill eltingaleikur og tilraunir mannsins við að ná vatninu sem virðist hanga þarna í loftinu á ósýnilegum spotta. Hann klifrar upp reipið eftir karöflunni en nær ekki. Hann reynir að raða upp kössunum og ná þannig til karöflunnar. Allar tilraunir mistakast. Loks gefst hann upp sest á einn af kössunum en um leið er sætinu kippt undan honum. Hann reynir ekki einu sinni að standa upp. Situr bara kjurr í eyðimörkinni og horfir á hendur sínar. Meira að segja nær karaflan ekki að freista hans þó hún dingli rétt við höfuð hans og skugginn frá pálmatrénu heillar ekki heldur. Hann tekur ekki lengur þátt í þessum leik og honum lýkur.

Leikur án orða var frumfluttur hér á landi 19. febrúar árið 1966 af Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó. Það var Gísli Halldórsson sem brá sér í hlutverk mannsins og sá einnig um leikstjórn. Leikmynd gerði Sævar Helgason en Gissur Pálsson hannaði lýsingu. Leikurinn var sýndur átta sinnum í Iðnó við ágæta aðsókn. Árið 2001 setti Kómedíuleikhúsið á Ísafirði leikinn upp í Edinborgarhúsinu. Leikari var Elfar Logi Hannesson, Guðjón Ólafsson leikstýrði, Friðþjófur Þorsteinsson hannaði lýsingu og Kristinn J. Níelsson samdi tónlist sérstaklega fyrir uppfærsluna. Frumsýnt var 12. apríl einnig var sýnt í Baldurshaga á Bíldudal. Sjónvarpsútgáfa af Leikur án orða er í hinni metnaðarfullu seríu Beckett on Film þar sem mörg bestu verka Beckett voru kvikmynduð fyrir sjónvarp. Það er Sean Foley sem er í hlutverki mannsins, leikstjóri Karel Reisz og Michael Nyman samdi tónlist sérstaklega fyrir uppfærsluna.

 

Samuel Beckett

Samuel Barclay Beckett fæddist 13. apríl árið 1906 í Foxrock sem er úthverfi í Dublin á Írlandi. Hann stundaði framhaldsnám við Portora Royal skólann í Ulster og sóttist námið ekki allskostar vel en hann þótti þó skara fram úr í einni grein en það var í íþróttum. Hann lauk þó náminu og innritaðist í Trinity háskólann í Dublin þar sem hann nam tungumál, ensku, ítölsku og frönsku. Nú gekk námið betur og fjórum árum síðar lauk hann BA prófi með hæstu einkunn. Á háskólaárunum vaknaði áhugi Becketts á leikhúsinu einkum voru það verka skáldanna Sean O'Ceasy og Lugi Pirandello. Kvikmyndir voru einnig í uppáhaldi og þá einkum meistarar þöglumyndanna þeir Charles Chaplin og Buster Keaton. Sá síðarnefni var í sérstöku uppáhaldi og mörgum árum síðar gerði hann kvikmynd sem var sérstaklega samin með Keaton í huga. Leikarinn með Steinandlitið einsog hann er jafnan nefndur var þá komin á efri ár en fór þrátt fyrir það á kostum í myndinni. Margir vilja meina að áhrifa Keaton og Chaplin gæti í fjölmörgum verka Beckett og nægir þar að nefna einleikinn Leikur án orða.

Að háskólanámi loknu reyndi Beckett fyrir sér sem kennari en entist aðeins í einn vetur í því starfi. Hann settist að í París árið 1928 og bjó þar næstu tvö árin. Á þeim tíma var ein af ritgerðum Beckett Dante....Bruno. Vico....Joyce, gefin út á bók. Beckett og landi hans James Joyce urðu góðir kunningjar og aðstoðaði hann Joyce m.a. við að þýða kafla úr Finnegan's Wake á frönsku. Beckett hellti sér nú yfir í skrifin að krafti fór að semja ljóð og vann eitt þeirra til verðlauna í ljóðasamkeppni. Einnig þýddi hann ítölsk ljóð fyrir dagblöð í Frakklandi og smásaga eftir hann var birt í tímariti. Árið 1930 flutti hann aftur til Dublin og ári síðar var fyrsta leikverk hans, Le Cid, sýnt á árlegri leiklistarhátíð í Trinity College. Auk þess að yrkja og þýða ljóð byrjaði hann að vinna að einni skáldsögu, Dream of Fair to Middling Women, en náði ekki að ljúka við hana. Árið 1934 kom út smásagnasafn hans More Pricks Then Kicks, Fleiri broddar en spyrnur en verkið var bannað í Írlandi einkum vegna titils bókarinnar sem hafði þó skírskotun til Biblíunnar. Ljóðsafnið Echo's Bones and Other Precipitates var gefið út í París skömmu síðar og árið 1937 flutti hann þangað. Eftir að hafa boðið um fjörtíu bókaútgefendum skáldsöguna, Murphy, kom verkið loks út árið 1938. Ekki voru viðtökur lesenda mikil því á tíu ára tímabili voru aðeins seld 100 eintök. Þegar seinni heimstyrjöldin skall á var Beckett meðlimur í frönsku andspyrnuhreyfingunni. Þegar komst upp um starfsemina lagði hann á flótta ásamt ástkonu sinni og verðandi eiginkonu Suzanna og komust þau undan til Roussillion. Ganga þeirra og það sem gerðist á leiðinni endurspeglast að marga mati í hans þekktasta verki Beðið eftir Godot.

Árið 1946 urðu þáttaskil í rithöfundaferli Samuel Beckett og á næstu fjórum árum samdi hann sín merkustu verk. Hann ritaði verkin á frönsku en snéri þeim síðar yfir á ensku. Þegar Beckett hófst handa við trílógíuna Molloy, Malone deyr og Hið ónefnanlega, semur hann milli annarrar og þriðju bókar leikritið Beðið eftir Godot. Hann sagði frá því síðar að það hafi eingöngu verið ,,til að slaka á, til að komast frá þeim hroðalega prósa sem ég var að semja um þessar mundir." Þrátt fyrir afkastamikil ár gekk erfiðlega að fá verkin útgefin en loks fékk hann inni hjá bókaútgáfunni Editions í París og sáu þeir um að gefa verk hans út eftir það. Þann 5. janúar árið 1953 var Beðið eftir Godot frumsýnt í París í leikstjórn Roger Blin. Leikurinn hitti í mark og var sýndur um fimm hundruð sinnum. Ári síðar var verkið sett upp í þýskalandi og árið þar á eftir í London í leikstjórn hins virta leikhúsmanns Peter Hall. Eftir það fer Godot sigurför um Evrópu. Leikfélag Reykjavikur var fyrst til að sýna verkið hér á landi en það var leikárið 1965 - 1966 með Brynjólfi Jóhannessyni og Árna Tryggvasyni í aðalhlutverkum. Allmörgum árum síðar setti Oddur Björnsson, leikskáld, leikin á svið hjá Leikfélagi Akureyrar. Eitthvað voru norðanmenn lítið spenntir fyrir sýningunni og urðu sýningar fáar. Þegar Leikfélaginu var hins vegar boðið að sýna Godot á Listahátíð í Reykjavík var fullt útúr dyrum og sagan segir að Akureyringar hafi verið í meirihluta leikhúsgesta. Oddur fékk síðan Menningarverðlaun DV fyrir uppsetninguna.
Árið 1956 sendi Samuel Beckett frá sér þrjú leikverk, Endatafl, Leikur án orða II og Allir þeir er við falli er búið. Þremur árum síðar sendi hann frá sér hin merka einleik Síðasta segulband Krapps. Hann samdi líka verk fyrir útvarp og fékk Prix Italia verðlaunin 1957 fyrir leikinn Embers. Verðlaunin héldu áfram að koma. Hann fékk bókmenntaverðlaun Prix international des Editeurs, 1961, og síðast en ekki síst Bókmenntaverðlaun Nóbels 1969. Í kjölfarið vöknuðu hugmyndir um að reisa sérstakt Beckett leikhús en þau áform runnu út í sandinn þrátt fyrir að teikningar að húsinu hafi legið fyrir.

Samuel Beckett leikstýrði mörgum leikrita sinna og þá einkum í Schiller leikhúsinu í Berlín. Hann setti Endatafl á svið árið 1967, Happy days, 1971, og loks Beðið eftir Godot 1975. Ári síðar var haldið uppá sjötugs afmæli hans víða um heim. Royal Curt leikhúsið sýndi mörg verka hans, BBC flutti eitt útvarpsleikritanna og safn smáleikrita Ends and Odds var gefið út. Beckett lét þó ekki staðar numið hér og hélt ótrauður áfram að skrifa. Af leikverkum má nefna A Piece of Monologue, Svefnþula, Catastrophe sem hann tileinkaði tékkneska skáldbróður sínum Vaclav Havel og loks Ohio Impromptu sem hann samdi sérstaklega fyrir Beckett ráðstefnu í Ohio árið 1981. Einnig er rétt að geta sjónvarpsballetsins Quad sem hann leikstýrði einnig. Árið 1984 vakti uppfærsla hans á Godot mikla athygli enda var sýningarstaðurinn nokkuð frumlegur eða San Quentin fangelsið í Bandaríkjunum. Þegar Beckett varð áttræður var einnig haldin mikil veisla honum til heiðurs víða um heim. Útvarps- og sjónvarpsstöðvar voru með sérstakar dagskrár um skáldið og heildarútgáfa verka hans leit dagsins ljós, leikrit, ljóð og sögur. Loks var gerð sjónvarpsmynd um ævi Beckett er nefnist Silence to Silence. Árið 1987 kom út hér á landi úrval úr verkum Beckett í þýðingu Árna Íbsen. Þar er um að ræða safn leikrita, ljóða og sagna einnig er þar fjallað um skáldið og er m.a. stuðst við þær heimildir í þessari samantekt.

Samuel Beckett andaðist 22. desember árið 1989. Hann skildi eftir sig merk verk og koma þau til með að halda nafni hans á lofti um ókomin ár.