Eggert Kaaber á eintali
Nokkur sjálfstæð leikhús eru helguð börnum og unglingum. Eitt af þeim er Stoppleikhópurinn sem hefur starfað af miklum krafti síðan árið 1995 en aðalStopparinn og leikhúsStoppstjórinn er Eggert Kaaber. Líkt og mörg önnur barnaleikhús bæði hér heima og erlendis hefur Stoppleikhópurinn verið með einleiki á leikskrá sinni. Af einleikjum Stoppleikhópsins má nefna Palli var einn í heiminum og Þrymskviða og Iðunnareplin en báðir leikirnir hafa verið sýndir á Act alone. Kómedíuleikarinn hitti Eggert Kaaber og tók við hann einleikið viðtal.
Þú hefur verið mörg ár í leikarabransanum og komið víða við. Hvernig lá leið þín inní leikhúsið ertu kannski einn af mörgum sem ákvað strax í æsku að verða leikari?
Já ég lét mig dreyma um það á unglingsaldri að verða leikari en sem polli hafði ég meiri áhuga á íþróttum og þá sérstaklega fótbolta. Annars byrjaði ég ekki að leika fyrr en í menntaskóla og fór svo síðar að leika með Leikfélagi Kópavogs. Þá var ekki aftur snúið og fór ég í beinu framhaldi í inntökupróf hjá Leiklistarskóla Íslands vorið 1986. Og komst inn.
Hvert lá leiðin að námi loknu? Biðu hlutverk hjá stofnanaleikhúsunum í röðum eða..?
Nei það byðu mín ekki freistandi tilboð hjá stofnanaleikhúsunum. Ég hafði hinsvegar fyrstu árin mín eftir útskrift 1990 nóg að gera í hinum ýmsu verkefnum tengdum leiklist. Í byrjun veturs 1991 réð ég mig svo til Akureyrar að leika hjá Leikfélagi Akureyrar. Þar var ég næstu tvö árin og lék í nokkrum leiksýningum. Má þar nefna Íslansklukkan, söngleikurinn Kystu mig Kata og barnaleikritið Lína Langsokkur.
Árið 1995 stofnaðir þú Stoppleikhópinn og hvernig gekk fyrsta árið?
Fyrsta árið gekk framar vonum. Fyrsta sýningin okkar var umferðaleikrit Umferðaleikritið Stopp. Var þetta tilraun hjá okkur að fara með litla fræðslusýnngu í skólana í samstarfi við Skólaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Urðu sýningar um 60 talsins og viðtökurnar frábærar. Eftir það ákváðum við að halda áfram og einbeita okkur að nýjum íslenskum leikritum og þá sérstaklega með fræðslu og forvarnartengdu efni.
Stoppleikhópurinn er einn af elstu starfandi sjálfstæðu leikhópunum í dag. Er ekki erfitt að ná endum saman í svona rekstri?
Jú það er það svo sannarlega og má segja að fyrstu árin hafi verið erfið. Við fengum þó styrki við og við en alltaf þurftum við að borga með okkur til að ná endum saman. Svona nokkurskonar dýrt hobbý. Í seinni tíð hefur leikhópurinn verið að sanna sig betur og betur. Og í beinu framhaldi hafa svo bæði Menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg veitt okkur fína styrki sem munar sannarlega um. Erum við afskaplega þakklát fyrir það. En betur má ef duga skal.
Sýningar ykkar eru flestar á skólatíma sem þýðir að stundum er kannski verið að leika klukkan hálf níu að morgni. Er ekkert erfitt að leika svona árla dags?
Jú það getur verið það en maður er orðinn ýmsu vanur. Kosturinn er hinsvegar sá að með því að byrja snemma að leika, að þá er maður búinn fyrr í vinnunni um daginn.
Áður en við vindum okkur í einleikinn þá væri gaman að fá að heyra frá þér hver sé staða barnaleikhússins hér á landi í dag?
Hún er alltaf að batna. Það eru sífellt fleiri atvinnuleikhópar að koma upp barna- og unglingasýningum. Það er gott og líka eftirtektarverkt að fleiri og fleiri leiksýningar ætlaðar börnum og unglingum eru að fara erlendis á leiklistarhátíðir. Fjárhagslega séð mætti samt alveg veita hærri opinbera styrki til handa barna- og unglingamenningu í landinu.
Í leikverkagallerýi Stoppleikhópsins eru nokkrir einleikir, segðu okkur aðeins frá þeim?
Einleikurinn Palli var einn í heiminum varð til hjá okkur Katrínu Þorkelsdóttur. Er hann hugsaður sem einföld og falleg barnasýning þar sem ýmindunaraflið er í fyrirrúmi. Ekkert props eða leikmunir voru í sýningunni en falleg leiktjöld voru með til að ramma inn sýninguna. Sýningin var mjög vinsæl og var sýnd í nokkur ár.
Næst gerði ég fallega jólasýningu með Margréti Kaaber en hún hét Síðasta stráið en verkið var byggt á bók eftir kanadískan höfund. Er sagan barnaútgáfa á jólaguðspjallinu þ.e.a.s. úlfaldinn Hósmakaka segir söguna en hann er úlfaldi eins vitringana. Koma við sögu ýmis dýr og persónur sem vilja koma gjöfum til Jesú barnsins. Var ég einn í sýningunni ásamt gullfallegum úlfalda sem listakonan Katrín Þorvaldsdóttir hannaði. Verkið var sýnt tvö jól og fékk fínar viðtökur.
Það er hægt að gera hlutina á svo marga vegu og þá ekki síst í leikhúsinu. Hvernig var vinnuferlið í nýjasta einleik Stoppleikhópssins Þrymskviða og Iðunnareplin?
Ég var búinn að vera með í maganum lengi að gera leikrit eða leikgerð byggða á norrænni goðafræði. Ég fékk Katrínu Þorkels til að vinna með mér handrit sem byggðu á sögum um þekktustu goðum norrænnar goðafræði. Einsog Þór, Loka, Freyju, Óðni og Iðunni. Þróaðist hugmyndin síðar að einleiksforminu þar sem einhver skemmtileg nútíma persóna segði söguna. Völdum við Pál nokkurn Jónsson en hann er forfallakennari sem kennir af mikilli ástríðu norræna goðafræði.
Hvað er það við einleikinn sem gerir hann svo eftirsóknaverðan að glíma við?
Einfaldleikinn sem er síðan svo flókin. Að auki gefur hann leikaranum mjög mikið. Formið er líka það háskalegasta sem finnst í leikhúsinu. Þú ert nefnilega einn á sviðinu og enginn kemur að bjarga þér.
Þegar öllu er á botninn hvolft er þá einhver munur á einleik og leikverki með fleiri en einum leikara?
Nei ekki mikill en helst þó vegna einverunnar.
Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í einleiknum eða bara í leikhúsinu almennt?
Nei ekkert sérstaklega.
Það er oft talað um það að einleikurinn hafi verið í mikilli uppsveiflu hér á landi og er það ábyggilega rétt. En hver er þá staða einleiksins í dag?
Mér finnst hann vera sterkur því stöðugt er sótt í hann. Er þetta ekki bara arfurinn okkar, að segja öðrum sögur einsog gert var í gamla daga. Baðstofuloftsstemmningin.
Hver er að þínu mati helsti kostur einleikjaformsins?
Fyrst og fremst ögrandi og krefjandi form sem allir leikarar verða að prófa.
En galli?
Stórháskalegt. Þú ert aleinn og enginn bjargar þér ef eitthvað fer úrskeiðis.
Á Act alone 2007 sýndir þú einleikinn Þrymskviða og Iðunnareplin og árið 2005 komstu með Palli var einn í heiminum. Hvað finnst þér um þetta apparat Act alone?
Frábært framtak sem komið er til að vera. Gríðarlegar mikilvægt fyrir leiklistarflóruna að hafa þessa listahátíð. Þarna á listin sannarlega eftir að blómstra.
Hvaða ráð viltu gefa leikurum sem eru að hefja glímuna við einleikinn?
Kasta sér útí sundlaugina og svammla áfram. Vera með hugmynd sem viðkomandi brennur í skinninu að gera. Einnig að vera með í kollinum: Af hverju er þetta einleikur en ekki leikverk fyrir fleiri.
Hvað er svo framundan hjá Stoppleikhópnum?
Við erum að hefja æfingar á nýju íslensku leikriti, Bólu - Hjálmar. Er leikritið byggt á ævi og kveðskap skáldsins. Höfundar eru þeir Ármann Guðmundsson, Snæbjörn Ragnarsson, Sævar Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason. Verður sýningin ætluð ungu fólki frá 11 ára aldri og uppúr. Áætluð frumsýning er í mars 2008.