Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Hallveig Thorlacius á eintali

Einleikurinn hefur notið vaxandi vinsælda hér á landi hin síðari ár. Sérstaklega hefur verið mikil gróska í einleiknum í barnaleiksýningum og þá ekki síst í brúðuleikhúsinu. Meðal þeirra sem hafa starfrækt brúðuleikhús á Íslandi og gert sérlega útá einleikjasýningar eru mæðgurnar Hallveig Thorlacius og Helga Arnalds. Báðar eru með eigin leikhús og hafa sett á svið marga vandaða brúðuleikhúseinleiki. Leikhús Hallveigar heitir Sögusvuntan og eru allar sýningar þess einleikir. Elfar Logi Hannesson spjallaði við Hallveigu Thorlacius um brúðuleikhúsið, einleikinn og stöðu listarinnar.

 

Þeir sem fylgjast með leikhúsinu og taka þátt í umræðunni tengja nafn þitt jafnan við brúðuleikhús enda hefur þú starfað á því sviði í marga áratugi. Því liggur beinast við að spyrja hvernig lá leið þín inní leiklistina fórstu í leiklistarskóla eða kannski brúðuleikhússkóla?
Mín leið inn í leikhúsið var nú býsna krókótt. Af einhverjum dularfullum ástæðum fékk ég snemma óslökkvandi áhuga á þessu leikhúsformi og það meira að segja áður en ég sá brúðuleiksýningu í fyrsta sinn. Ég var með stóran skammt af ævintýraþrá - sem ég er raunar ekki laus við enn - og eftir stúdentspróf lá leið mín til Moskvu. Því miður var hvergi boðið upp á formlegt nám í brúðuleikhúsi á þessum árum, annars hefði ég verið snögg að stökkva í það.  Í staðinn fór ég í háskólann og sniglaðist í frístundum dálítið baksviðs í stóra brúðuleikhúsinu í Moskvu.


Þegar þú varst að byrja í brúðuleikhúsinu voru nú ekki margir í þeirri deildinni Jón E. Guðmundsson er reyndar brautryðjandi í hinu íslenska brúðuleikhúsi þannig að á þeim tíma sem þú hefur komið inní greinina hefur hann verið byrjaður að kynna fyrir landanum þetta skemmtilega leiklistarform. Eða hvað? Hvernig var staðan þegar þú helltir þér útí brúðuleikhúsið í upphafi og hvernig gekk þetta alltsaman?
Eftir að ég skreið út úr háskóla tók ég kennarapróf og fór fljótlega að nota brúður í kennslunni. En það var ekki nóg. Einn góðan veðurdag frétti ég af því að 3 konur væru að byrja að leika brúðuleikhús í kjallaranum á Fríkirkjuvegi 11. Það voru þær Bryndís Gunnarsdóttir, Erna Guðmarsdóttir og Helga Steffensen. Ég gekk til liðs við Leikbrúðuland og það var mikið gæfuspor. Þetta voru skemmtileg ár hjá okkur. Við höfðum góða aðstöðu – salurinn í kjallaranum var eins og sniðinn fyrir þessa tegund leiklistar. Þarna settum við upp hverja sýninguna á fætur annarri í tvo áratugi og það má segja að þetta hafi verið minn skóli. Það var náttúrulega engin hefð til í landinu og við gerðum bara það sem við vildum. Það var ákafinn sem fleytti okkur áfram. Þjóðsögurnar urðu kveikja að mörgum sýningum þarna í kjallaranum. Við vorum alltaf í góðu sambandi við Jón E. Guðmundsson og fengum hann til að kenna okkur að búa til strengjabrúður. Hann var mikill ljúflingur og örlátur á sína kunnáttu. Okkar fyrsti leikstjóri var Hólmfríður Pálsdóttir leikkona, en sá sem mest leikstýrði okkur var Þórhallur Sigurðsson og hann er í dag tvímælalaust okkar reyndasti leikstjóri á þessu sviði. Leikbrúðuland var á sínum blómatíma töluvert þekkt utan lands, tók þátt í fjöldamörgum leikhúshátíðum og vann til alþjóðlegra verðlauna fyrir tvær af sýningum sínum – Tröllaleiki og Bannað að hlæja!. Það var mikið flakkað. En skilningurinn á þessu puði okkar var nú ekki meiri en sá að okkur var úthýst af Fríkirkjuveginum og þar með var brúðuleikhús í landinu orðið húsnæðislaust.

 

Svo stofnaðir þú eigið leikhús, Sögusvuntuna, hvað varð til þess að þú gerðir það?
Mér finnst svona eftir á að sú ákvörðun hafi ómeðvitað tengst þessum fyrsta og óútskýranlega áhuga mínum á brúðuleikhúsi. Ég hafði strax í upphafi mótað ákveðinn stíl í huganum sem var svo mikið minn eigin að ég gat ekki komið honum á framfæri öðru vísi en að vera ein. Nafnið á leikhúsinu er einmitt táknrænt fyrir það sem mig langaði til að gera – að segja börnum sögurnar sem amma mín sagði mér í eldhúsinu sínu fyrir norðan – tína þær upp úr svuntuvösunum og matreiða þær fyrir þennan miðil. Ég hélt samt áfram í Leikbrúðulandi í nokkur ár enn og lék á báðum vígstöðvum. Þróunin í Leikbrúðulandi hafði orðið sú að við notuðum mikið hljóðupptökur – fengum atvinnuleikara til að leika textann inn á band sem við lékum eftir. Með þessu móti fékkst trygging fyrir skemmtilegum blæbrigðum í röddum, en það sviptir mann ákveðnum tjáningarmöguleikum og mig langaði til að brjótast út úr þessu til að geta gripið augnablikið og náð beinu sambandi við áhorfendur. Í Bannað að hlæja! síðustu sýningunni sem ég vann með Leikbrúðulandi – að miklu leyti með Helgu Arnalds sem þá var nýkomin heim úr brúðuleikhúsnámi – reyndum við að fara bil beggja – nota band og jafnframt “lifandi” inskot.  Það lukkaðist vel.

 

Er ekkert erfitt að reka einsmanns leikhús?
Það er auðvitað ekkert grín að reka leikhús, en hver hefur sagt að það ætti að vera auðvelt? Það hefur sína kosti að standa einn að slíkum rekstri  og vera aðeins með sjálfan sig á launaskrá. Fyrir nú utan það hversu þægilegt það er að ráða öllu.
Úr sýningu Hallveigar Egla í nýjum spegli

 

Flestar  sýningar Sögusvuntunnar eru einleikir af hverju hefurðu valið þá leið og hvernig hefur glíman við einleikinn gengið?
Reyndar hafa ekki alveg allar sýningar Sögusvuntunnar verið einleikir. Helga Arnalds lék með mér í sýningunni um Músina Rúsínu sem við sýndum bæði hér, í Færeyjum, Danmörku og Grænlandi og Marion Herrera hörpuleikari lék með mér í sýningunni um Litla Fugl sem var samin fyrir allra, allra minnstu áhorfendurna.
Glíman við einleikinn hefur verið skemmtileg. Fyrstu skrefin voru reyndar mjög ógnverkjandi, en þegar ég fann að ég gat þetta hvarf óttinn. Reyndar má deila um það hvort þetta séu hreinræktaðir einleikir. Ég er jú alltaf með mótleikara í brúðunni.

 

Segðu okkur í stuttu máli frá vinnuferlinu við eitt stykki brúðuleikhúseinleik og þar til hann er frumsýndur?
Hjá mér er þetta alltaf langt ferli – oftast heilt ár. Fyrst er það meðgangan sem aðallega er fólgin í hugmyndavinnu. Hún fer oft fram á meðan ég er að synda mina daglegu 500 metra eða á gönguferðum. Síðan vel ég mér leikstjóra og við förum að kasta hugmyndum á milli okkar og út úr því fæðast brúðurnar smám saman – fyrst sem skissur og síðan fer ég að móta í leir, setja utan um leirinn, taka hann innan úr skelinni, mála, sauma og líma. Leikbrúður eru kenjóttar skepnur og gera stundum uppreisn gegn skapara sínum – þverneita að vera eins og ég hef hugsað mér í upphafi. Jöfnum höndum er ég svo að skrifa textann og pæla í leikmyndinni.
Fyrst á ferli mínum sem brúðuleikari lét ég ekki sjást mikið í mig heldur faldi mig bak við skerm. Það voru óskráð lög í brúðuheiminum að stjórnandinn ætti að vera ósýnilegur.  En nú er öldin önnur og ný tegund brúðuleikhúss hefur rutt sér til rúms. Það er þetta stefnumót brúðu og leikara á sviðinu sem ég er búin að uppgötva að er svo spennandi og getur gefið nýja og ótrúlega möguleika. Eitt mikilvægasta boðorðið þegar verið er að vinna svona blandaðar leikara-brúðusýningar er að endurtaka í sífellu sömu spurninguna: Er hægt að gera þetta án þess að nota brúðu? Ef svarið er játandi og manni finnst leikari geta komið einhverju betur til skila þá sleppir maður brúðunni. Það er allt önnur orka í því að nota brúðu þegar ástæðan er sú að ekkert annað getur komið í staðinn fyrir hana. Þegar hún er ekki þarna bara vegna þess að maður vinnur í brúðuleikhúsi.
Mér finnst líka nauðsynlegt af ýmsum ástæðum að gera ráð fyrir lengra æfingaferli þegar maður er einn.

 

Þú hefur ferðast mikið um heiminn með sýningar þínar og sýnt á leiklistarhátíðum útum allt. Oft er rætt um að tungumálið sé engin fyrirstæða í leikhúsinu. Leikur þú á íslensku þegar þú sýnir erlendis?
Nei, ég er oftast að leika fyrir börn og leik alltaf á því tungumáli sem áhorfendur mínir skilja. ‘Eg er svo heppin að geta leikið á mörgum tungumálum – norðurlandamálunum, ensku, frönsku og rússnesku. Við Helga lékum meira að segja Músina Rúsínu á færeysku. Það var nú ekki auðvelt enda kunnum við ekkert í færeysku nema þessa einu sýningu. Eina undantekningin er grænlenskan. Ég er búin að fara í þrjár leikferðir til Grænlands og þá var notuð sú aðferð að semja nýja útgáfu af leiksýningunum á grænlensku og nota grænlenska leikara til að fara með allt talað mál.

Á flakki þínu um heiminn hefur þú væntanlega séð til kollega þinna í hinum ýmsu löndum og þá ekki síst í brúðuleikhúsheiminum. Hvernig stendur íslenskt brúðuleikhús í samanburði við t.d. nágrannaþjóðir okkar?
Eitt augnablik er greipt í minni mitt. Leikbrúðuland var komið til Júgóslavíu – nánar tiltekið Ljubljana sem nú er orðin höfuðborgin í Slóveníu, og við stöllur sátum inni tröllkonunni Flumbru tilbúnar að hefja leikinn þegar ljósin færu út. Þá flaug þessi hugsun gegnum hausinn á mér: Ætli við fáum ekki tómata og egg í hausinn, því hér eru menn svo góðu vanir? Það var þessi óvissa sem var að naga mig – hvernig stöndum við í samanburði við aðrar þjóðir sem hafa langa hefð - í samanburði við þá bestu. En þetta voru reyndar óþarfa áhyggjur - öðru nær. Við fórum heim með fyrstu verðlaun í vasanum og eignuðumst aðdáendahóp sem fylgdi okkur milli staða á þeirri leikferð. Ég held að þessi skortur á hefðum hafi átt sinn hlut í velgengni okkar. Við náðum að koma á óvart. Og endurtókum svo leikinn 10 árum síðar með Bannað að hlæja! Sem fékk líka 1. verðlaun.
Ég held að við stöndum okkur býsna oft vel í samanburði við aðrar þjóðir. Íslendingar mættu hins vegar bera meiri virðingu fyrir þessari listgrein og það er auðvitað okkar verkefni að skapa þá virðingu. Það er samt ekki alveg hlaupið að því vegna þess að hér hafa fullorðnir áhorfendur ekki almennilega vanist því að fara á brúðuleiksýningar – finnst þetta bara vera fyrir börn. Á meðan Íslendingar vaxa ekki upp úr þessum fordómum eru íslenskir áhorfendur og íslenskt leikhúsfólk að missa af ótrúlegum tækifærum sem búa í galdri brúðuleikhússins ef vel er á haldið. Kannski er lausnin fólgin í því að mennta fleira fólk í greininni. Eins og er hafa aðeins tveir Íslendingar menntun í brúðuleikhúsi, Helga Arnalds og Katrín Þorvaldsdóttir. Það þyrfti að fara að bæta þessari listgrein inn í námið í Listaháskólanum. Annars verður engin framþróun.

 

Okkur liggur líka forvitni á að spyrja um stöðu einleiksins hér á landi í samanburði við erlenda einleikara. Hvað finnst þér um einleikinn hér á landi?
Ég held að ég megi fullyrða að einleiksformið er miklu meira stundað hér á landi en víða annars staðar – sérstaklega í barnaleikhúsi. Kannski vegna þess að við höfum ekki efni á stórum leikhópum.  Það má segja að hér séum við komin með hefð og farin að kunna dálítið vel á þetta form.

Hver er að þínu mati helsti kostur einleikjaformsins?
Það er fyrst og fremst mikil áskorun að leika einn. Það gefur líka svo mikið frelsi. Svo er auðveldara að skipuleggja ferðir þegar ekki þarf að samræma tíma margra einstaklinga sem kannnski eru að leika á mörgum stöðum.

 

En galli?
Það er alltaf viss hætta á að einleikarinn fari alfarið í hlutverk sögumannsins sem út af fyrir sig er gott og blessað, en þá er hæpið að kalla þetta leikhús.
Svo er það auðvitað meira puð. Að öllu leyti.  Stundum þreytist maður á að sjá um allt – hringja, senda upplýsingar, skipuleggja leikferðir, bera út og inn, setja upp leikmyndir, stilla ljós og svo hefur maður engan til að kjafta við á eftir.
Hallveig og brúða úr Súpunni hennar Grýlu heilsa uppá leikhúsgesti þegar leikurinn var sýndur á Ísafirði fyrir jólin 2006.

 

Þú hefur tvisvar komið fram á Act alone leiklistarhátíðinni og verður einnig með sýningu á Act alone nú í sumar. Hvaða skoðun hefurðu á hátíðinni?
Ég á ekki orð til að lýsa aðdáun minni og ánægju með þetta frábæra framtak. Hátíðin verður alltaf betri og betri. Ég fullyrði að þessi leikhúshátíð er á heimsmælikvarða hvað skipulag snertir. Það rennur allt svo slysalaust.

Hvaða ráð viltu gefa leikurum sem eru að hefja glímuna við einleikinn?
Mér finnst skipta máli að skapa persónur og spennu milli þeirra – að aðskilja þær og  láta lofta vel á milli þeirra - hvíla í hverri persónu fyrir sig og fylgja henni á leiðarenda. Til þess þarf maður að fara alla leið í að kljúfa sig í herðar niður – hjá okkur brúðuleikurunum í bókstaflegri merkingu - milli hægri og vinstri handleggs.
En svo er líka mikilvægt að vera óhræddur við að fara sínar eigin leiðir.

 

Hvað er svo framundan hjá þér og Sögusvuntunni?
Ég hef verið að leika Egilssögu undanfarið í skólum um landið vítt og breitt.  Svo hef ég nýlokið námi sem gönguleiðsögumaður með rússnesku sem aðaltungumál og þar með eru að opnast dyr inn í ferðamannabransann. Næsta verkefni hjá mér er að æfa Egilssögu á rússnesku og leika fyrir rússneska ferðamenn sem leið eiga til landsins.
Í haust er ég að fara á tvær leikhúshátíðir – aðra í Rússlandi og hina í Svíþjóð.
Svo blóðlangar mig til að halda áfram að leikbrúðuvæða Íslendingasögurnar.