Fyrsti viðburður dagsins í dag, 8. ágúst, á Act alone verður opnun á myndlistarsýningu Drífu Garðarsdóttur frá Bíldudal kl.18.01. Fimmtán mínútum síðar verður hin rómaða fiskiveisla og upphafsstef Act alone. Sem verður í þreföldum hátíðarbúning því í ár fagnar ekki bara Act alone 20 ára afmæli heldur og Tjöruhúsið sem er jafnaldri hatíðarinnar. Svo á Íslandssaga á Suðureyri 25 ára afmæli. Í tilefni alls þessa munu Íslandssaga og Tjöruhúsið leiða saman potta og pönnur svo úr verður einstök fiskiveisla. Skúli mennski stígur á stokk í félagsheimilinu kl.19.01 og klukkutíma síðar verður boðið upp á hinn vinsæla einleik Félagsskapur með sjálfum mér. Vestfirsku skáldin Ólína Þorvarðardóttir og Eiríkur Norðdahl verða með sagnastundir þar á eftir og loks líkur þessu einstaka fimmtudagskveldi með gjörningsverkinu The Route.
Þá vita margir hvar best er að vera í dag.