Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Act Alone 2008

DAGSKRÁ ACT ALONE 2008
2. - 6. JÚLÍ


 

Miðvikudagur 2. júlí

Sýningarstaðir: Alþýðuhúsið – Hamrar salur Tónlistarskóla Ísafjarðar

 

Kl. 20.00 Setning Act alone í Alþýðuhúsinu.

 

Opnunarsýning:
STEINN STEINARR (Kvikmyndasýning)

Kómedíuleikhúsið
Handrit: Elfar Logi Hannesson, Guðjón Sigvaldason
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Ljós, hljóð: Friðþjófur Þorsteinsson, Guðjón Sigvaldason
Leikmynd, búningar, leikstjórn: Guðjón Sigvaldason
Kvikmyndataka: Jóhannes Jónsson digi-Film
Einleikur um eitt þekktasta og umdeildasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Handrit leiksins er nokkuð frábrugðið öðrum verkum en 98% textans er eftir Stein sjálfan. Þar er um að ræða brot úr greinum eftir Stein, 29 ljóð og brot úr viðtölum.
Steinn Steinarr eða Aðalsteinn Kristmundsson fæddist árið 1908. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap um langa hríð og varð mjög umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein. Skáldskapur hans var kallaður tóm vitleysa af sumum, aðrir á hinn boginn fögnuðu framlagi hans og töldu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Núna hrífast flestir af skáldskap Steins. Ljóð hans eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög. Steinn Steinarr andaðist árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.


 

Kl. 21.30 Hamrar

BÚLÚLALA – ÖLDIN HANS STEINS

Kómedíuleikhúsið
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Tónlistarmaður: Þröstur Jóhannesson
Búlúlala - Öldin hans Steins er nýr ljóðaleikur fyrir leikara og tónlistarmann sem Kómedíuleikhúsið setur á svið til að minnast aldarafmælis Steins Steinars. En Aðalsteinn Kristmundsson, einsog hann hét réttu nafni, fæddist 13. október árið 1908 og er án efa eitt af merkustu skáldum þjóðarinnar. Í þessum leik, Búlúlala - Öldin hans Steins, verða flutt mörg af kunnustu ljóðum Steins í bland við þau sem minna eru þekkt. Elfar Logi Hannesson, leikari, flytur ljóðin í leik og tali en Þröstur Jóhannesson flytur frumsamin lög við ljóð Steins. Marsibil G. Kristjánsdóttir gerir leikmynd sem er portret af skáldinu. Meðal ljóða sem koma við sögu í sýningunni má nefna Að frelsa heiminn, Barn, Miðvikudagur, Söngvarinn, Tindátarnir, Þjóðin og ég og síðast en ekki síst Búlúlala ljóðið sem leikurinn er nefndur eftir.


 

Fimmtudagur 3. júlí

 

Sýningarstaðir: Hótel Ísafjörður – Háskólasetur Vestfjarða -  Tjöruhúsið – Hamrar

 

Kl. 12.12. Hótel Ísafjörður
HÁDEGISLEIKHÚS

 

Sýndir verða leikirnir:


ÖRVÆNTING
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Jónína Leósdóttir
Leikari: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson
Í dag er hægt að ,,laga" allt. Brotin sjálfsmynd getur orðið heil. Er er bara nóg að slétta yfirborðið.

 

ÞAÐ KOSTAR EKKERT AÐ TALA Í GSM HJÁ GUÐI
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Pétur R. Pétursson
Leikari: Sveinbjörn Hjálmarsson
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson
Hesturinn er ekki lengur þarfasti þjónn mannsins. Gætir þú hugsað þér dag án GSM. Það er slæmt að gleyma 'onum en öllu verra að gleyma sér með 'onum.


Kl. 13.30 – 16.00.  Háskólasetur Vestfjarða
LEIKLISTARNÁMSKEIÐ:

 

Hvað felst í textanum? Og hvernig komum við honum til skila í flutningi?

Kennari: Sigurður Skúlason
Þátttökugjald: 10.000.-
Skráning: Háskólasetur Vestfjarða lara@hsvest.is
Sigurður Skúlason leikari heldur námskeið í textaflutningi, laust mál og bundið. Mikilvægi þess að geta greint texta og túlkað er mikilvægt öllum leikurum sem og öðrum sem koma fram hvort heldur á bæjarstjórnarfundi eða á þorrablóti. Sigurður Skúlason er vel kunnur fyrir leik sinn í sjónvarpi og í kvikmyndum auk þess sem rödd hans er vel kunn í útvarpi. Óhætt er að segja að Sigurður sé meðal bestu upplesara hér á landi og er því mikill fengur að geta boðið uppá þetta vandaða námskeið á Act alone 2008. Rétt er að geta þess strax að þátttakendafjöldi á námskeiðinu er miðaður við 15 manns og er því rétt að vera snöggur að skrá sig.


Kl. 17.00. Tjöruhúsið
ÁLFAR TRÖLL OG ÓSKÖPIN ÖLL

Höfundur, leikari: Sigurður Atlason
Það er sagnamaðurinn, galdramaðurinn og skemmtikrafturinn Sigurður Atlason, frá Galdarsafninu á Ströndum, sem ætlar að leiða gesti um króka og kima íslenskrar þjóðtrúar og spretta úr spori á hlaupabraut sagnalistarinnar.


KL. 18.30. Hótel Ísafjörður
FERIÐIN TIL CADIZ (Útvarpseinleikur)

Útvarpsleikhúsið
Höfundur: Oddur Björnsson
Leikari: Þorsteinn Gunnarsson
Fiðluleikur: Bergþóra Jónsdóttir
Tæknimaður: Georg Magnússon
Leikstjórn: Jón Viðar Jónsson


KL. 20.00.Hamrar
KÍNKI SKEMMTIKRAFTUR AÐ SUNNAN

Flytjandi: Kinkí
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Tónlist og texti: Benóný Ægisson (já svo eru víst nokkur   
tökulög)
Kinkir Geir Ólafsson er söngvari og mannkynsfræðari. Hann er líka með hjartað fullt af ást sem hann úthellir á kertaljósakonsertum sínum. En umfjöllunarefnið er ekki bara ástin. Nei þetta er líka upplýsandi dagskrá fyrir úthverfalið og aðra sveitamenn. Kinkí mun meðal annars leiða dreifbýlingana í allan sannleika um átthaga sína, nafla alheimsins: 101 Reykjavík þar sem æðiliðið býr.


 

Kl. 22.00. Hamrar
FYRIRLESTUR UM ,,LÍFIД HANS LEIFS

Leikari, höfundur, leikstjóri: Leifur Þór Þorvaldsson
Í verkinu er gert grein fyrir undarlegum atvikum og staðreyndum úr lífi höfundarins sem gætu varðað okkur öll. Í verkinu takast á raunveruleikinn og gerfiheimur leiksviðsins í leitinni að hinni óræðu línu sem sker á milli raunverunar og draumaheimsins.


Kl. 22.30. Hamrar
ENGLAR Í SNJÓNUM

Höfundur: Unnur Guttormsdóttir
Leikari: Hörður S. Dan
Leikstjórn: Sigrún Óskarsdóttir
Lítið verk um súrsætar minningar Harðar. Hann dregur hverja upplifun æsku sinnar á fætur annarri úr hugskoti sínu og deilir þeim með okkur á hugljúfan hátt. En á bakvið minningarnar dvelur sagan um einmana dreng og hans raunir.  


             

 

Föstudagur 4. júlí


Sýningarstaðir: Hótel Ísafjörður – Háskólasetur – Edinborgarhúsið

 

Kl. 12.12       Hótel Ísafjörður
HÁDEGISLEIKHÚS

 

Sýndir verða leikirnir:


MUNIR OG MINJAR
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Þórunn Guðmundsdóttir
Leikari: Marta Sif Ólafsdóttir
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson
Safnaraeðlið hefur fylgt okkur frá Neðanderdalsmanninum til dagsins í dag. Viðfangsefni þessa verks er einmitt þetta vinsæla áhugamál. Menn safna ekki bara frímerkjum heldur öllu milli himins og jarðar. Til er fólk sem safnar naflalóg.

 

SÚSANNA BAÐAR SIG
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Lárus Húnfjörð
Leikari: Árni Ingason
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson
Strípistaðir hafa jafnan notið mikilla vinsælda á Íslandi. Í þessum leik fáum við innsýn í starfsemi eins stærsta og virtasta súlustaðar höfuðborgarinnar.


 

Kl. 13.30 – 16.00  Háskólasetur Vestfjarða

 

LEIKLISTARNÁMSKEIÐ, dagur tvö.

 

 

Kl. 16.30. Edinborgarhúsið
ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Kómedíuleikhúsið
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Tónlistarmaður: Þröstur Jóhannesson
Ég bið að heilsa er ljóðaleikur byggður á verkum Jónasar Hallgrímssonar, Listaskáldsins góða. Flutt eru mörg af ástsælustu ljóðum skáldsins í leik, tali og tónum. Meðal ljóða má nefna Gunnarshólma, Sáuð þið hana systur mína, Ferðalok, Vísur Íslendinga og að sjálfsögðu Ég bið að heilsa. Elfar Logi flytur ljóðin í leik og tali og Þröstur Jóhannesson flytur frumsamda tónlist við ljóð Jónasar.


 

Kl. 17.30. Kaffi Edinborg
FYRIRLESTUR:

SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT SEX STRENGJA
(Að reka eins manns leikhús)

Flytjandi: Benóný Ægisson
Frá hugmynd til framkvæmdar. Hraðnámskeið í hugmynda og verkefnavinnu sem gagnast mætti fólki sem rekur einleikhús.


 

Kl. 20.00. Edinborgarhúsið

FRAGILE

Krepsko
Handrit: Krepsko, Darinka Giljanoviæ
Byggt á hugymynd: Darinka Giljanoviæ, Linnea Happonen, Petr
Lorenc
Leikari, leikstjórn: Linnea Happonen
Lýsing: Petr Lorenc
Tónlist: Luis Fiestas
Sérstakur gestur: Jiøí Zeman
FRAGILE er leikverk í sífelldri þróun, við fylgjumst persónulega með leikpersónunni Laura úr verkinu Glass Menagerie eftir Tennesse Williams. Laura leiðir okkur í gegnum sitt brothætta umhverfi og hugarástand í þrúgandi þögn, þar sem allar nýir og óvæntir atburðir hafa miklar afleiðingar í för með sér. Gegnum hennar viðkvæma háttarlag drögumst við dýpra og dýpra inní hljóða en jafnramt einmannalega tilveru hennar. FRAGILE er sjónrænt verk þar sem rýmið verður eitt með leikaranum. FRAGILE er sýning sem er uppfull af smáatriðum og óvæntum atvikum þar sem áhorfandinn dregst inní hugarheim Lauru. Sá heimur er brothættur og þarf óneitanlega að byggja upp að nýju. FRAGILE er um margt sérstök sýning þar sem leikkonan hreyfir sig lítið sem ekkert og mikið er gert uppúr sjónrænn upplifun með aðstoð ljósa. 


 

Kl. 22.00. Edinborgarhúsið

SUPERHERO

Jaðarleikhúsið
Höfundur, leikstjórn: Eyrún Ósk Jónsdóttir
Leikari: Erik Hakansson
Superhero er dramatískur gamanleikur um Peter Brown, ungann mann er býr við stöðugt ofríki foreldra sinna. Þegar foreldrar hans falla skyndilega frá þarf hann að læra að taka sínar eigin ákvarðanir, áskorun sem í hans augum eru nánast óyfirstíganleg. Hann leitar því leiðsagna hjá ofurhetjunum sem hann kynntist í barnæsku.


 

Laugardagur 5. júlí


Sýningarstaðir: Edinborgarhúsið – Einarshús Bolungarvík.

 

Kl. 13.00. Edinborgarhúsið
ELDFÆRIN

Stoppleikhópurinn
Höfundur: H.C.Andersen
Leikgerð: Stoppleikhópurinn
Leikari: Eggert Kaaber
Leikmynd, búningar: Leikhópurinn
Leikstjóri: Margrét Kaaber
Ævintýraeinleikur byggður á einni þekktustu sögu skáldsins. Ævintýrið segir frá dáta nokkrum sem hittir norn á förnum vegi, hún biður hann að sækja eldfærin sín niður í tré þar rétt hjá en því fylgir að hann þarf að hitta þrjá stóra hunda sem sitja á peningakistum. Dátinn samþykkir þetta.......og fer síðan af stað skemmtileg og spennandi atburðarás sem allir þekkja. Leiksýningin er blanda af skuggaleikhúsi, söng, leik og fiðluleik.


 

Kl. 14.00. Edinborgarhúsið

BLÚSKONAN EINLEIKINN BLÚSVERKUR
Höfundur, flytjandi: Saga Sigurðardóttir
Blúskonan spratt upp á vormánuðum, og tók sér form sem einleikur eftir dansarann Sögu Sigurðardóttur. Með blúsverk er átt við ýmis hjartans óþægindi, nokkuð sem einhvers staðar einu sinni var kallað að vera hrjáður af bláu djöflunum. Þessir kvillar, sem eiga til að þjaka mannshjartað í vonbrigðum og ástarsorg meðal annars, voru þá sagðir brjótast út einsog bláir djöflar sem fengu svitann til að spretta fram á enninu og barka til að murra í örvæntinu í þremur hljómum. Einleikurinn fagnar þessari tregafullu en jafnframt tæru tengingu við mannsálina, þessa sem veldur Maggie’s farm-um og bitrum i-just-want-to-make-love-to-you- um…og um leið er hann óumflýjanlega helgaður ástinni, baráttu góðs og ills, svitabogum og endurteknum ljóðlínum á móti einni stakri.


Kl. 15.00. Edinborgarhúsið
LANGBRÓK

JÓI

Pars pro toto
Danshöfundur / dansari: Lára Stefánsdóttir
Tónhöfundur: Guðni Franzson
Hljóðfæraleikur: Blástur og fl. Guðni Franzson, gítar Hilmar Jensson, glös Matthías Hemstock
Myndverk: Ragnhildur Stefánsdóttir
Á Act alone hátíðinni á Ísafirði 2008 verður í fyrsta sinn sýndur samruni tveggja sjálfstæðra dansverka eftir Láru Stefánsdóttur; Langbrók og Jóa.  Kóreógrafía beggja verka er eftir Láru Stefánsdóttur, tónlist eftir Guðna Franzson en leikmynd er hönnuð af Ragnhildi Stefánsdóttur myndlistarmanni. Langbrók var frumsýnd á sóló dans-festivali KIT, í Kaupmannahöfn í ágúst 1999 og vakti þar mikla athygli en einnig snerti hún viðkvæman streng í Færeyingum þegar þeir sáu hana á fyrstu Listahátíð í Norðurlandahúsinu í ágúst ári síðar.  Langbrók byggir á lífshlaupi samnefnds glæsikvendis úr Njálu og tekur um 20 mínútur í flutningi þeirra Láru Stefánsdóttur og Guðna Franzsonar.  Langbrók var sýnd í Íslensku Óperunni á  Menningarnótt í Reykjavík 1999, á sýningu Pars Pro Toto í Þjóðleikhúsinu 2001 og í Berlin í nóvember síðastliðinn.
Jói (2002) var frumsýndur í Stuttgart í þýskalandi vorið 2002 þar sem verkið hlaut 1. verðlaun í samkeppni danshöfunda. Viss um að inní ástinni er allt sem þú leitar og að ástin skiptir öllu máli.  Skríður inn í rósótt sængurver á gröf, í kirkjugarði, sofnar og vaknar upp í svarta myrkri og úr myrkrinu þyrlast hvítt fiður.  Veist að þú ert inní ástinni og að ástin er hlý, mjúk og kitlandi.  Verkið er byggt á sögu Elísabetar Jökulsdóttur, Sængurverafiðrið.


Kl. 17.00. Einarshús Bolungarvík
PÉTUR OG EINAR
Kómedíuleikhúsið
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Höfundur, leikstjórn: Soffía Vagnsdóttir
Elfar Logi túlkar líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipar sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús.
Í sýningunni leiða Soffía Vagnsdóttir og Elfar Logi saman hesta sína öðru sinni en á síðasta ári settu þau upp sýninguna Jólasveinar Grílusynir sem sýnd var við góðan orðstýr í Tjöruhúsinu. Þar að auki voru íbúar bæjarins kallaðir til aðstoðar og brugðu þeir sér í hljóðver í Bolungarvík og sungu með íðilfögrum röddum, allt frá jólalögum og sálmum til vel þekktra þorrablótsvísna.
Það var Ragna Jóhanna Magnúsdóttir veitingamaður í Einarshúsi sem átti frumkvæðið að uppsetningu sýningarinnar og vinnur að fjármögnun verksins. Fékk hún Elfar Loga og Kómedíuleikhús hans til liðs við sig til að koma sögunni á fjalirnar.


 

Kl. 20.00. Edinborgarhúsið

VÖLUSPÁ
Theater Laboratory
Leikari: Oxana Svoyskaya
Brúður og búningar: Lana Andreeva, Alya Lipina
Leikstjórn: Vadim Maksimov
Í þessu verki vinnur Teatralanaya Labortaoriya eftir aðferðum Antonin Artaud þar sem ekki er unnið með eiginleg leikverk heldur epísk.
Óðinn æðstur allra guða krefst þess af völvu að hún lesi úr draumum Baldurs sonar síns. Úr draumunum les valva dauða Baldurs og upphaf Ragnaraka.
Teatralnaja Laboratoríja tók til starfa í Leníngrad (nú Skt. Pétursborg) árið 1984 og hefur starfað þar sem framsækið tilraunaleikhús eða leiksmiðja allar götur síðan, sviðsett tugi leikverka af ýmsum toga og getið sér gott orð á alþjóðavettvangi og unnið til margvíslegrar viðurkenningar, bæði í heima-landinu og utan þess. Vadím Maksímov er doktor í listfræði og prófessor við leiklistarakademíuna í Pétursborg, sérfróður um franska leiklist og einkum verk Antonins Artraud, heimspekings og leikskálds, sem uppi var á fyrri hluta síðustu aldar. Í verkinu um Völuspá er aðferðum Artrauds beitt og leikið að hluta til með brúðum.


Kl. 22.00. Edinborgarhúsið
AÐVENTA

Möguleikhúsið
Eftir Gunnar Gunnarsson
Leikgerð, leikstjórn: Öldu Arnardóttur
Leikmynd, búningar: Messíana Tómasdóttir
Lýsing: Bjarni Ingvarsson
Tónlist, hljóðfæraleikur: Kristján Guðjónsson
Leikari: Pétur Eggerz
,,Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu.“
Þannig hefst saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Bókin kom út árið 1939 og er hún sú saga Gunnars sem sem víðast og oftast hefur verið gefin út. Hún kom fyrst út á dönsku, en síðar þýddi höfundurinn hana sjálfur á íslensku.
Hér er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum eftirlegukindum til byggða fyrir hátíðirnar. Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mýrdalsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi í vetrarhörkum íslenskra öræfa.
Í sýningunni er unnið eftir aðferðum frásagnarleikhússins þar sem einn leikari. Pétur Eggerz, stendur á sviðinu, flytur söguna og bregður sér jafnframt í hlutverk helstu persóna. Þá skipar hljóðmynd stóran sess í sýningunni og á þátt í að skapa heim sögunnar, en höfundur hljóðmyndarinnar er Kristján Guðjónsson sem hér vinnur sitt fyrsta verkefni með Möguleikhúsinu.


 

 

Sunnudagur 6. júlí


Sýningarstaðir: Félagsheimilið Þingeyri, Félagsheimilið Haukadal Dýrafirði.

 

Kl. 14.00.     Félagsheimilið Þingeyri
CHICK WITH A TRICK

Pro Rodopi Art Center
Byggt á ævintýrum Margarit Minkov
Leikari, val á tónlist, Chorography: Desislava Mincheva
Brúður, búningar, leikmynd: Hanna Schwarz
Handrit, framleiðandi, leikstjórn: Petar Todorov
Chick with a trick er fjörugt brúðuleikhúsverk fyrir alla fjölskylduna. Verkið fjallar um hænu sem sem verpir heldur furðulegu eggi og leitar ráða hjá öndinni, lækninum og konunginum. En þau eru öll heltekin af sínum eigin vandamálum og veita vandamáli hænunnar enga athygli. Eftir að hafa leitað ráða án árangurs sannfærir hænan sjálfa sig að það sé ekkert rangt við að gera eitthvað óvenjulegt, sérstaklega ef það veitir einhverjum ánægju, líkt og börnunum.
Sýningin hefur verið á flakki um heiminn og unnið til fjölda verðlauna á  erlendum leiklistarhátíðum.


Kl. 16.00.     Félagsheimilið Haukadal Dýrafirði
TVÆR MYNDLISTARSÝNINGAR:

 

 

GÍSLA SAGA SÚRSSONAR Í MYNDUM

Íslendingasögurnar hafa löngum verið listamönnum innblástur og ófáir hafa gert myndverk eða leikrit sem sótt eru í þessi merku bókmenntaverk. Listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir hefur nú bæst í þennan hóp og í þessari sýningu vinnur hún með þekktar setningar úr Gísla sögu Súrssonar sem hún túlkar í einstökum verkum. Þess má geta að þessi sýning er sýnd samtímis á þremur sögustöðum Gísla sögu, í Haukadal, í Arnarfirði og á Barðaströnd.

 

VESTFIRSKIR EINFARAR
Einstök myndlistarsýning á verkum eftir listahjónin Gunnar Guðmundsson og Guðmundu Jónu Jónsdóttur frá Hofi í Dýrafirði. Bæði fóru sínar eigin leiðir í listinni og eru því í hópi svonefndra einfara í hinum íslenska myndlistarheimi.


Kl. 17.00. Félagsheimilið Haukadal Dýrafirði
ÚR ÖÐRUM SÁLMUM YFIR Í VORIÐ GÓÐA

Höfundur, flytjandi: Þröstur Jóhannesson
Vorið 2006 gaf Þröstur út plötuna Aðrir sálmar, á henni flutti hann lög við eigin ljóð ásamt því að leita í smiðju margra af okkar þekktustu ljóðskálda. Nú vinnur Þröstur að annarri plötu sem hefur vinnuheitið Vorið góða sem kemur sennilega út í haust. Á þessum eins manns tónleikum flytur hann lög af báðum þessum plötum og eflaust slæðast með einhver glæný.


 

Hátíðarlok á Ísafirði en við tekur Act alone í Iðnó í Reykjavík 8. júlí þar sem erlendu sýningar hátíðarinnar verða sýndar.



ACT ALONE Í IÐNÓ 8. JÚLÍ
Miðaverð á allar sýningarnar þrjár 3.500.- kr. Einnig er hægt að kaupa miða á hverja sýningu fyrir sig en þá kostar miðinn 1.500.- kr.
Miðasala hefst 16. júní  http://www.midi.is


 

Kl. 18.00. Iðnó

CHICK WITH A TRICK


 

Kl. 20.00. Iðnó

VÖLUSPÁ (féll niður vegna veikinda)


 

Kl. 22.00. Iðnó

FRAGILE


 

 

ACT ALONE 2008 ÞAKKAR FYRIR SIG
SJÁUMST Á ACT ALONE 2009