Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Cornelia Otis Skinner

Höfundur:

Elfar Logi

 

Fjölhæfur listamaður ekki bara einleikari sem samdi sína eigin leiki heldur einnig leikkona og virkur rithöfundur. Hún hafði mikil áhrif og var fyrirmynd margra kvenna í listageiranum. Hún fylgdi í fótspor einleikjadífunnar Ruth Draper og var reyndar líka líkt við hana á leiksviðinu þó voru þær ólíkar.

Cornelia Otis Skinner fæddist 30. maí 1901 í Síkagó dóttir leikarahjóna og var leikhúsið í stóru hlutverki á heimilinu. Móðirin sagði reyndar skilið við listagyðjuna nokkrum árum eftir að Cornelia fæddist en faðir hennar, Otis Skinner, hélt áfram að fullum krafti og ferðaðist víða með leikhópum og naut talsverðra vinsælda. Á námsárunum tók Cornelia fyrst þátt í leikstarfinu sem varð síðan til þess að hún flutti til Parísar um 1920 þar sem hún nam leiklist hjá hinum virta leikhúsmanni Jacques Copeau.. Árið 1921 flutti fjölskyldan aftur til Ameríku og Cornelia fékk fljótlega hlutverk í leikhúsum í verkum á borð við Blood and Sand og In his Arm og vakti strax athygli leikhúsáhugamanna. 

Árið 1925 var viðburðaríkt í listamannsferli hennar. Fyrsta leikrit hennar Captain Fury var frumsýnt og sama ár frumsýndi hún fyrsta einleikinn sinn bæði sem höfundur og leikari. Á þessum tíma bar Ruth Draper höfuð og herðar yfir aðra einleikara og var Skinner líkt við hana enda voru fyrstu leikir hennar ekki ósvipaðir byggðir upp á stuttum atriðum, lítil sem engin leikmynd, fáir leikmunir og búningar af skornum skammti. Hún átti auðvelt með að leika margar persónur og hlutverkaskiptin voru mörkuð með einfaldri líkamsstöðu eða með því að taka sér einhvern leikmun í hönd s.s. regnhlíf eða að klæðast einhverjum einföldum fötum t.d. setja upp hatt og þá var komin ný persóna. Skinner átti þó eftir að fara sína eigin leið í einleiknum með sögulegum leikjum með íburðamiklum búningum og leikmynd. Leikir Skinner fjölluðu oft um stöðu konunnar og um sögufrægar konur. Fyrsti sögulegileikur hennar er The Wives of Henry VIII sem hún sýndi fyrst í Bretlandi og síðan í New York 1931. Enn var allur umbúnaður s.s. leikmynd og leikmunir í algjöru lámarki en búningurinn þótti tilkomumikill. Leikurinn var 43 mínútur í flutningi og var skipt niður í sex þætti.

Til að gera langa sögu stutta þá sló í leikurinn í gegn og næstu árin hélt Skinner áfram í sögulegu deildinni. Ári síðar, 1932, frumsýndi hún The Empress Eugenie og svo The Loves of Charles II 1934, sem fjallaði um sex konur í lífi enska konungsins og brá Skinner sér í gerfi þeirra allra. Leikurinn Edna His Wife, 1937, sem er byggður á samnefndri sögu eftir Margaret Ayer Barnes naut fádæma vinsælda og sýndi hún hann bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Þekktasti leikur Skinner og jafnframt síðasti einleikur hennar er Paris ’90 sem hún samdi í samstarfi við Kay Seift sem einnig samdi tónlist og söngtexta. Paris ’90 er sýning í 14 atriðum og fjallar um sögulegar eða skáldaðar konur Parísarborgar frá tímabilinu 1890. Skinner lék alls þrettán persónur í leiknum. Þetta var mjög viðamikil uppsetning á einleikjamælikvarðanum með frumsamdri tónlist, leikmynd, ljósum og búningum. Leikhúsið er list augnalbliksins og því þekkja fáir þennan leik í dag en hinsvegar þekkja margir auglýsingaplakat leikins sem er birt hér að ofan og má segja að það hafi heiðrað þennan merka einleik. Skinner ferðaðist með leikinn um Bandaríkin og hóf svo sýningar á Broadway 1952 þar sem hann var sýndur 87 sinnum.  Skinner sýndi ekki eingöngu í leikhúsum því einnig voru einkasýningar einsog fyrir kvennaklúbba ýmiskonar og hafði Skinner nóg að gera við að anna þeirri eftirspurn. Þrátt fyrir miklar vinsældir á einleikjasviðinu þá leit hún alltaf á einleikinn sem aukabúgrein eitthvað sem var gott að grípa í á milli annarra verkefna. Þegar litið er yfir það tímabil sem Skinner starfaði sem leikari eru áhrif hennar á einleikjaformið engu minni en forvera hennar Ruth Draper og þar á undan Beatrice Herford og má segja að þessar þrjár hafi tekið við af hvori annarri.

Skinner lék þó ekki alltaf ein því hún tók þátt í fjölmörgum sýningum á Broadway og vakti stormandi lukku fyrir aðalhlutverkið í Candida eftir George Bernard Shaw 1937. Skáldið var í skýjunum með leik Skinner og sendi henni þakkarskeyti. Í því stóð einfaldlega ,,Frábært. Stórkostlegt." Hún svaraði um hæl með orðunum ,,Á ekki skilið slíkt hrós.". Skáldið sem var mikill húmoristi sendi annað skeyti um hæl og í því stóð ,,Ég átti við verkið." Leikkonan var líka með húmor og svaraði: ,,Ég líka." Þar með lauk skeytasendingum þeirra en það var nú ekki oft sem Shaw var talaður í kaf. Árið 1952 fékk Skinner Barter leikhúsverðlaunin fyrir frammistöðu sína á Broadway leiksviðunum. Átta árum síðar lék hún í eigin verki The Pleasure of His Company sem hún samdi í samstarfi við Samuel Taylor. Leikurinn naut mikilla vinsælda og var síðar kvikmyndaður með Lilli Palmer og Fred Astaire í aðalhlutverkum. Það var svo árið 1964 sem Skinner sagði skilið við leiklistina og kvaddi þar með Broadway leiksviðið.

Hún settist þó síður en svo í helgan stein heldur lagðist í skriftir af miklum krafti og sendi frá sér fjölda ritverka næstu árin. Hún ritaði fjölmargar greinar sem birtust m.a. í Reader’s Digest og seinna voru greinarsöfn hennar gefin út á bók. Það ritverk sem heldur henni fyrst og fremst á lofti er sjálfsævisagan When Our Hearts Were Young and Gay. Þar fjallaði hún um lífið í París um 1920 en París var henni alla tíð mjög hugleikin. Bókin var bæði færð í leikbúning og kvikmynduð, 1944, þar sem Gail Russel var í hlutverki Skinner. Hún ritaði meira um líf sitt í ævisögunni Family Circle þar sem hún segir frá ferli sínum og föður síns. Árið 1967 gaf hún út bókina Madame Sarah sem þykir sérlega vönduð ævisaga hinnar merku leikkonu Söru Bernhardt. Cornelia Otis Skinner andaðist í New York 9. júlí árið 1979.


GEISLADISKAR
Paris '90, 2003