Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Dave Allen

Höfundur:

Elfar Logi

 

Hver man eftir Dave Allen? Írska grínaranum sem gerði ódauðlega sjónvarpsþætti sem sýndir voru í Sjónvarpinu fyrir allmörgum árum við fádæma vinsældir. Væntanlega kveikja margir á perunni við þessa lýsingu: Grínarinn situr í háum stól, með whiskí glas í annar hönd og sígarettu í hinni. Reytir af sér brandarana, oft neðanbeltis og trúarlegs eðlis, í bland við leikin atriði. Dave Allen var magnaður sögumaður sem hafði víðtæk áhrif á gerð gamansjónvarpsþátta og gætir þeirra enn þann dag í dag nú síðast í hinum frábæru Little Britain.

Hans rétta nafn er David Tynan O'Mahoney en umboðsmaður hans fékk hann til að breyta nafni sínu í Dave Allen fyrir skemmtanabransann enda er það mun þjálla í munni. Hann fæddist í Dublin 6. júlí 1936 og starfaði fyrst sem blaðamaður áður en leiklistin tók völdin. Árið 1955 hóf hann leikferilinn með ónefndum breskum leikhópi. Hann tók síðan upp samstarf við einn af leikurum hópsins og byrjuðu þeir að skemmta saman á hinum ýmsu stöðum. Hann ákvað síðan að freista gæfunnar einn síns liðs og sá m.a um að hita upp fyrir Bítlana auk þess að fara með gamanmál á stippbúllum. Árið 1959 kom Dave Allen í fyrsta sinn fram í sjónvarpsþætti sem hét New Faces og var á BBC sjónvarpsstöðinni. Nokkrum árum síðar var hann kominn til Ástralíu og stjórnaði þar spjallsjónvarpsþætti. Vakti þátturinn mikla lukku og kom Dave Allen á grínkortið. Árið 1964 kvæntist hann leikkonunni Judith Stott og fluttu þau aftur heim til Bretlands þrátt fyrir vinsældir bóndans í áströlsku sjónvarpi. Snéri hann sér að leikhúsinu og tróð upp einn síns liðs við fádæma vinsældir.

Árið 1967 byrjaði Allen með eigin sjónvarpsþátt og varð brátt á allra vörum í Bretlandi. Allt ætlaði um koll að keyra og hann gerði brátt aðra seríu fyrir sjónvarp. Hún nefnist einfaldlega Dave Allen Show og þar kom hann fram sitjandi í háum stól, með whiskí (sem var í raun kampavín) í annarri hönd og sígarettu í hinni. Þetta átti síðar eftir að verða einskonar vörumerki Dave Allen á sjónvarpsskjánum. Í kjölfarið fylgdu fleiri sjónvarpsseríur m.a. Dave Allen at Large og Inside the Mind of Dave Allen. Efni þátta Dave Allen voru einkum sótt í trúmál og kynlíf sem hefur reyndar verið mikill brunnur grínista í gegnum áratugina ef ekki aldir. Eitthvað fór þetta fyrir brjóstið á kirkjunnar mönnum sem gagnrýndu þættina óspart og skrifuðu harðorðar blaðagreinar um þættina. Allt ætlaði um koll að keyra þegar sýnt var atriði með páfanum strippandi í Vatikaninu. Í leikhúsinu bauð Dave Allen m.a. uppá einleikinn An Evening with Dave Allen og  sýndi í leikhúsum í Bretlandi og á Broadway. Árið 1993 var síðasta gamansería hans í sjónvarpi sýnd. Næstu árin kom hann fram í spjallþáttum og árið 1998 gerði hann upp feril sinn í þáttunum The Unique Dave Allen. Dave Allen andaðist 10. mars árið 2005.

BÆKUR
The Essential Dave Allen, Graham McCann, 2005
Dave Allen, Carolyn Soutar, 2005

DVD
Dave Allen - The Best of