Emlyn Williams
Höfundur:
Elfar Logi
Leikarinn og skáldið Emlyn Williams hafði gífurleg áhrif á þróun einleikjalistarinnar um miðja síðustu öld þegar hann frumsýndi einleikinn Emylyn Willimas as Charles Dickens. Leikinn sýndi hann í heila þrjá ártugi í það heila um tvö þúsund sýningar. Hann gerði nokkra einleiki til viðbótar auk þess að gera það gott sem leikskáld og leikari á sviði og í kvikmyndum.
George Emlyn Williams fæddist í norðaustur Vails 26. nóvember árið 1905. Á skólaárunum byrjaði hann að fást við skriftir og einn kennara hans, Sarah Grace Cooke, sá strax að pilturinn væri efni í gott skáld. Hún hvatti hann áfram í ritstörfunum og var milligöngumaður um að hann fengi skólastyrk til frekari menntunar. Þó námið gengi vel þá gekk hann til liðs við ónefndan leikhóp árið 1927 og þreytti frumraun sína sem leikari í leikritinu And So to Bed. Hann hélt skrifunum þó áfram og árið 1935 vakti hann verðskuldaða athygli fyrir leikritið Night Must Fall. Tveimur árum síðar var leikurinn kvikmyndaður með Robert Montgomery í aðalhlutverki og á nýjan leik árið 1964 með eðalleikaranum Albert Finney. Williams lét ekki þar við sitja heldur sendi frá sér annan leikhússmell The Corn is Green, 1938, sem einnig rataði á hvíta tjaldið árið 1945 og skartaði Bette Davis í aðalhlutverki. En verkið byggir að hluta á æsku Williams. Löngu síðar gerði leikstjórinn George Cukor sjónvarpsmynd eftir leiknum og þar var enginn aukvissi í aðalhlutverkinu eða dífan Katharine Hepburn. Williams samdi á annan tug leikrita auk þess að semja fyrir hvíta tjaldið. Hann var einn af meðhandritshöfundum og jafnframt leikari í tveimur myndum Alfred Hitchcock The ManWho Knew Too Much, 1934, og Jamaica Inn, 1939. Eftir það lék hann í fjölmörgum kvikmyndum m.a. You Will Remember, 1941, Hatter’s Castle, 1942, og I Accusse, 1957. Ritstörfunum sinnti hann einnig af kappi og ritaði ævisögu sína í tveimur bindum George, 1961, og Emlyn, 1973, og sendi frá sér skáldsöguna Headlong sem síðar var kvikmyndað þó all frjálslega hafi verið farið með efnið. Myndin heitir King Ralp og skartar stórleikurunum John Goodman, Peter O’Toole og John Hurt. Synir Emlyn Williams gengu einnig listaveginn. Annar þeirra, Adam Williams, gerðist rithöfundur en hinn, Brook Willimas, fylgdi í fótspor föður síns. Svo skemmtilega vill til að Brook sló fyrst í gegn í leikriti föður síns The Corn is Green og hann lék síðar í fjölmörgum kvikmyndum. Flestar myndirnar eru með Richard Burton í aðalhlutverki en þeir voru góðir vinir. Burton og Williams voru einnig góðir vinir en sá síðarnefndi leikstýrði honum tvívegis fyrst á sviði og svo á hvíta tjaldinu og var hvorttveggja frumraun Burton. Til gamans má geta þess að Williams var síðar guðfaðir Kate dóttur Burton. Emlyn Williams var fjölhæfur listamaður einsog hér hefur komið fram en ekki er þó allt nefnt afrek hans á einleikjasviðinu eru eftir og þar er nú ekki komið að tómum kofanum.
Segja má að einleikjaferill Emlyn Willimas hafi hafist árið 1950 þegar hann var beðinn um að koma fram á ónefndri góðgerðasamkomu. Átti hann að flytja brot úr verki eftir sjálfan sig en eitthvað hugnaðist honum það illa og baust í staðinn að flytja brot úr sögu eftir Charles Dickens. En hann hafði þá verið að stúdera ævisögu skáldsins sem var á tímabili einskonar einleikari því hann ferðaðist um heiminn og flutti sögur sínar með leikrænum hætti einn síns liðs. Engir búningar og ekkert vesen aðeins eitt ræðupúlt á sviðinu og kannski eitt vatnsglas. Þetta er nú ekki einsdæmi því Mark Twain var einnig í þessum bransa og streymdi fólk í leikhúsið til að hlusta á þessa meistara segja sínar eigin sögur. Emlyn dubbaði sig upp í gerfi Charles Dickens í þar til gerðum fatnaði Dickenstíma. Þannig kom hann fram á sviðið þetta kvöld og flutti brot úr sögu eftir Dickens. Til að gera langa sögu stutta þá sló leikur hans í gegn. Þetta varð til að kveikja í leikaranum og skáldinu Williams og hann hófst handa við að skrifa einleik í fullri lengd þar sem hann kæmi fram sem skáldið Dickens. Hann gaf sér góðan tíma en óttaðist samt sem áður hvernig verkinu yrði tekið eða einsog hann sagði síðar frá: ,,Þetta var mjög taugastrekkjandi hugmynd. Ég hafði ekki verið einn á senunni síðan á skólaárum mínum og ég vissi að þessir áhorfendur mundu gera miklar kröfur.” Í verkinu er hann í gerfi skáldsins Charles Dickens með nánast autt svið að undanskildu litlu púlti og nokkrum skruddum. Skáldið hefur síðan upp rausn sína og tekur til við að segja sínar eigin sögur með leikrænum hætti. Eða einsog hann sagði sjálfur: ,,Ég leik persónurnar einsog ég ímynda mér að Dickens hafði gert það.” Hann tók hins vegar þann pól í hæðina að velja frekar þau verk sem fólk þekkti síður frekar en taka klassík einsog Jóladraum sem allir þekktu og höfðu kannski ákveðnar skoðanir um. Meðal sagna sem hann tók fyrir má nefna The Battle of Live, Tale of Two Cites og Black Veil. Leikinn nefndi hann einfaldlega Emlyn Williams as Charles Dickens. Frumsýnt var í Listaleikhúsinu í Cambridge 25. júlí árið 1951 við glimrandi undirtektir. Eftir það hélt hann í leikferð um England og lét ekki þar við sitja heldur sigldi vestur um haf þar sem honum var einnig tekið fagnandi. Næstu áratugina flutti hann leikinn víðs vegar um heiminn eða allt til ársins 1981 og hafði þá sýnt um 2000 sýningar.
Árið 1952 frumsýndi hann nýjan leik og enn var það meistari Dickens. Að þessu sinni tók hann bara fyrir eina sögu Bleak House en einsog áður var hann í gerfi skáldsins að segja söguna með sínum hætti. Leikurinn fékk ágæta dóma þó ekki væru þeir eins jákvæðir og á fyrri leiknum.
Þremur árum síðar var þriðji einleikurinn frumsýndur og nú var nýtt skáld tekið fyrir. Samlandi hans Dylan Thomas og var leikurinn byggður á verkum sem tengdust æskunni og uppvextinum enda bar hann heitið A Boy Growing up. Nú voru gagnrýnendur í hæstu hæðum og lofuðu Williams og var hann tilnefndur til Tony verðlaunanna. Að vanda lagðist hann í leikferð um heiminn og sýndi víða næstu tvo áratugina.
Enn voru skáldin honum hugleikin í fjórða og síðasta einleik Emlyn Williams. Nú var það skáldið H. H. Munro sem er betur þekktur undir nafninu Saki. Leikurinn hét upphaflega Saki en var síðar breytt í The Playbody of the Weekend World og var frumsýndur árið 1977. Eitthvað voru rýnendur að agnúast núna og mesti hluti skrifana fór í að bera saman fyrri verk Williams og fannst þeim þessi nýi falla nokkuð í skuggann af hinum. Hann fékk þó góða dóma fyrir leik sinn að vanda.
Emlyn Williams hafði mikil áhrif á einleikjaformið og var sjálfur óþrjótandi í því að hvetja aðra listamenn til að fást við þetta einleikna form. Einkum hafði hann áhuga á því að leikarnir rituðu verk sín sjálfir og tækju þá fyrir verk þekkra skálda. Ófáir hlýddu kallinu og enn í dag eru skáld og verk þeirra vinsælt viðfangsefni einleikara um allan heim.
Emlyn Willimas andaðist 25. september árið 1987.
BÆKUR
George, An Early Autobiography by Emlyn Williams, 1961