Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Eric Bogosian

Höfundur:

Elfar Logi

Einn mesti einleikari síðustu áratuga er bandaríski leikarinn Eric Bogosian. Í tvo áratugi eða frá 1981 - 2000 frumsýndi hann hvern einleikinn á fætur öðrum og fyllti Off - Broadway leikhúsin kvöld eftir kvöld. Síðustu ár hefur hann hinsvegar haldið sig nokkuð til hlés í leikhúsinu og haslað sér völl í kvikmyndum og sjónvarpi.

Eric Bogosian fæddist í Woburn í Massachusetts 24. apríl árið 1953. Hann útskrifaðist úr Oberlin háskólanum og flutti þá til New York. Stefnan var sett á leikhúsið en einsog ósjaldan hefur verið sagt frá í ævisögum, ritum og tímaritum þá er nú ekki hlaupið að því að koma sér á framfæri í henni New York. Þetta þurfti Bogosian ungi að fást við og að lokum komst hann að mikilvægari niðurstöðu um hvað hann þyrfti að gera til að meika það sem listamaður í borginni: ,,Það var kominn tími á að vera raunsær og hugsa skýrt. Ég var algjörlega auralaus og varð því að gera eitthvað sem kostaði lítið. Einleikur var svarið. Óþarfi að leigja sérstakt æfingahúsnæði, ekki þarf að borga leikurum laun, leikmyndakostnaður í algjöru lámarki sem og búningar og ljós. Efnið átti ég þegar til staðar. Þetta allt þýddi að ég gæti farið í leikferð og í stað þess að tapa peningum sá ég fram á að græða nokkra aura." Ófáir listamenn hafa verið í þessum sömu sporum og hafa gengið sama veg og Bogosian en þó hafa ekki allir náð jafn góðum árangri og hann. Efnið var til staðar einsog leikarinn benti á enda er hann mjög klár penni og hófst þegar handa við æfingar á fyrsta einleik sínum. Leikurinn var frumfluttur árið 1981 og heitir Men Inside. Verkinu var vel tekið og fólk fór að fylgjast með þessum unga leikara sem greinilega lá mikið á hjarta. Að vera bæði höfundur og leikari er sérstök staða en að sögn Bogosian gekk það samstarf vel: ,,Leikarinn í mér vill bara skemmta. Þegar hann heyrir áhorfendur hlæja þá getur hann bætt við texta að vild ef hann er látinn í friði. Höfundurinn veit hins vegar hvert verkið á að leiða og hann er dæmdur ef hann lætur einhvern leikara klúðra því."

Tveimur árum síðar, 1983, frumsýndi hann nýjan einleik Funhouse og svo sendi hann frá sér hvern smellinn á fætur öðrum. Árið 1986 Drinking in America, fjórum árum síðar Sex, Drugs and Rock & Roll,1990, svo leikurinn með langa nafnið Pounding Nails in the Floor With My Forehead, 1994, og loks Wake Up and Smell the Coffee, 2000. Leikir hans einkennast af svörtum húmor og samfélagslegri ádeilu. Það er óhætt að segja að hann sé mjög beinskeyttur í verkum sínum enda stakk hann á kíli margra áhorfenda. Honum liggur mikið á hjarta og er sannarlega að meina það sem hann er að segja. Enda eru leikir hans uppfullir af orku. Það má segja að einleikir Bogosian séu hið sanna leikhús ef þannig má að orði komast þ.e. leikarinn er í aðalhlutverki. Engin leikmynd bara drapperingar og meira að segja er leikmunum stillt í hóf. Á sviðinu er þó til taks stóll og míkrafónn og kannski bolli eða bjórflaska. Einfaldleikinn fær hér að njóta sín og sagan sjálf er í aðalhluverki. Áhorfendum jafnt sem rýnendum féll þetta vel í geð og hann sópaði að sér verðlaunum. Þrisvar hlaut hann Obie verðlaunin eftirsóttu og einnig Drama Desk viðurkenninguna. Samstarfsmaður Bogosian og leikstjóri margra einleikjanna var Jo Anne Bonney einkona hans. Þau gengu í það heilaga árið 1980 og eiga tvö börn saman. hefur hún leikstýrt nokkrum einleikja hans. Eric Bogosian setti seinna upp sýningu með völdum brotum úr einleikjum sínum. Leikinn kallaði hann THE WORST OF ERIC BOGOSIAN og er óhætt að segja að titillinn hafi verið öfugmæli. Gaman er að geta þess að hann kom hingað til Íslands árið 2006 til að taka þátt í einleikjahátíðinni Act alone á Ísafirði. Hann var hinsvegar fullur efasemda um það hvort leikurinn ætti heima hér uppá klakanum. Annað kom hins vegar á daginn og var hann margsinnis klappaður upp. Enda var hér á ferðinni einstök leikhúsupplifun. 

Kvikmyndaferill Bogosian hófst árið 1983 þegar hann lék ónefndan tæknimann á sjónvarpsstöð í myndinni Born in Flames. Hann hefur leikið í yfir þrjátíu myndum án þess þó að verða einhver Hollywood stjarna. Enda vandar hann jafnan valið á verkefnunum hefur m.a. leikið í myndum eftir Woody Allen og Robert Altman. Þekktasta hlutverk hans á hvíta tjaldinu er án efa hlutverk útvarpsmannsins í Talk Radio sem er byggð á samnefndu leikverki eftir Bogosian en meistari Oliver Stone leikstýrði ræmunni. Talk Radio hlaut Silfurbjörninn eftirsótta á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Leikverkið hefur ekki síður notið vinsælda og árið 2007 var það sett á fjalirnar á nýjan leik og hlaut sú uppfærsla tvær Tony tilnefningar. Bogosian hefur samið fleiri leikverk og af þeim má nefna Griller, Humpty Dumpty, Red Angel og síðast en ekki síst subUrbia. Síðast nefnda verkið var einnig kvikmyndað með góðum árangri og er í dag í uppáhaldi cultmynda aðdáenda. Bogosian hefur einnig sent frá sér tvær skáldsögur Mall, 2002, og Wasted Beauty, 2005. 

Eric Bogosian hefur helgað sig æ meira kvikmyndum og sjónvarpi eftir Íslandsheimsóknina. Hann leikur m.a. eitt aðalhluverkið í sjónvarpsþáttunum Law and Order Criminal Intent þar sem hann fer á kostum í hlutverki Kapteins Danny Ross. 

Heimasíða Eric Bogosian er www.ericbogosian.com

 

BÆKUR
Drinking in America, 1989
The Essential Bogosian, 1994
Pounding Nails In the Floor with my Forehead, 1994
Sex, Drugs, Rock & Roll, 1996
Wake Up and Smell the Coffee, 2002

 

GEISLADISKAR
Live in London, 1983
Sex, Drugs, Rock & Roll, 1990
Pounding Nails In the Floor with my Forehead, 1998

 

DVD
Funhouse, 1988
Wake Up and Smell the Coffee, 2001