Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

George Alexander Stevens

Höfundur:

Elfar Logi

Einn af frumherjum einleikjaformsins er enski listamaðurinn George Alexander Stevens. Einleikur hans Lecture upon Heads naut gífurlegra vinsælda og var sýndur í meira en hálfa öld. Hinsvegar lék Stevens ekki nærri allar sýningarnar né heldur vissi hann um alla hina leikarana sem sýndu verkið. Sumir voru svo grófir að þeir sögðust heita George Alexander Stevens.

Einleikurinn átti nokkuð góðu gengi að fagna á átjándu öld í Englandi. Ástæðan fyrir því er einföld það voru aðeins tvo alvöru leikhús og því varð samkeppni milli leikara mjög mikil. Sá sem fyrstur reið á vaðið var Samuel Foote (1732-1777) sem þótti frekar slappur leikari og klikkaði m.a. sem Óþelló því áhorfendur hlógu bara að honum. Foote byrjaði þá að herma eftir öðrum leikurum og setti saman stutta dagskrá en hann var þó ekki einn á senunni því hann hafði lítinn leikhóp sér til halds og trausts. Leikarinn George Alexander Stevens bauð hins vegar uppá einleikinn leik sem sló í gegn svo um munaði og hafði mikil áhrif á aðra einleikara. Svo miklar voru vinsældinar að aðrir leikarar stálu bara efninu enda höfundaverkið ekki mikið verndað á þessum tíma. 

George Alexander Stevens fæddist árið 1710 í Holborn sem er skammt fyrir utan London. Hann var einn þeirra sem starfaði í leikhúsunum en hafði þó ekki vakið sérstaka athygli sem slíkur. Þegar hann ákvað hinsvegar að freista gæfunnar einn síns liðs byrjuðu hlutirnir að gerast. Þann 30. apríl 1764 frumsýndi hann einleik sinn Lecture upon Heads við glimrandi undirtektir. Einsog nafnið gefur til kynna komu höfuð nokkuð við sögu því á senunni voru mannshöfuð af ýmsum stærðum og gerðum en höfuðinn útbjó hann úr pappamassa. Sum andlitin voru þekktar persónur en sumar gátu verið hver sem er hvort heldur John Johnson eða Mary Johnson. Síðan hóf Stevens leikinn tók eitt höfuð fyrir í einu og gerði því skil. Ef um þekkta persónu var að ræða hermdi hann eftir henni. Svo tók hann næsta höfuð sem var kannski hefðardama þá tók sýndi hann hegðun hennar, stæla, göngulag og hártísku. Þannig hélt hann áfram og gerði hverju höfði skil. Hann tók einnig fyrir litla mannlega hluti einsog athöfnina að hnerra og gerði það með ýmsum hætti allt eftir hver átti í hlut. Líkt og Ómar Ragnarsson gerði löngu síðar þegar hann tók hláturinn fyrir í laginu Flestir hlæja ha, ha, osfrv.

Stevens flakkaði um landið með einleikinn og meira að segja skundaði hann yfir hafið og sýndi í Ameríku um 1766. Allsstaðar var honum vel tekið og þá ekki síður af öðrum leikurum. Kollegar hans tóku sig nú til við að stæla verk Stevens sumir tóku bara handritið einsog það lagði sig og gerðu að sínu. Skipti engu hvort það voru karlar eða konur og jafnvel barnastjörnur og skemmtikraftar settu leikinn á svið án þess að nafn Stevens kæmi þar nokkursstaðar fram. Sumir voru svo grófir að segja að þeir væru George Alexander Stevens. Aðrir sögðu að þeir væru hér að sýna fyrir höfundinn eða væru í félagi við Stevens og jafnvel að viðkomandi hefði keypt réttinn á verkinu. Ekkert af þessu átti við rök að stiðjast þar sem Stevens fékk ekki krónu frá neinum þessara listamanna aðeins fyrir sínar eigin sýningar þegar hann lék sjálfur. Þannig fór einleikurinn Lecture upon Heads einsog eldur um sinu um heim allan í yfir fimmtíu ár og er áætlað að sýningar hafi verið um eitt þúsund á því tímabili. 

Stevens var ekki bara leikari heldur einnig liðtækur penni og tónskáld. Hann samdi mörg vinsæl lög, leikrit, ljóð og eina skáldsögu, Tom Fool. George Alexander Stevens andaðist árið 1784.