Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Hal Holbrook

Höfundur:

Elfar Logi

Hann hefur aðeins leikið í einum einleik um ævina en þrátt fyrir það er hann einn mesti áhrifavaldur einleiksins í Bandaríkjunum á síðustu öld. Reyndar hefur hann leikið einleikinn sinn í meira en hálfa öld og er enn að þegar þessi grein er rituð og hefur sýnt um 2000 sýningar. Leikurinn heitir Mark Twain Tonight! og fjallar um skáldið orðheppna. Þessi einleikni leikari er Hal Holbrook.

Hann heitir fullu nafni Harold Rowe Holbrook, jr og fæddist í 17. febrúar 1925 og ólst upp í Masatjuset í Bandaríkjunum. Þegar seinni heimstyrjöldin geysaði gengdi hann herþjónustu og var staðsettur í Nýfundnalandi. Hann innritaðist í Denison háskólann og þar hófst ævintýrið um skáldið Twain og Holbrook sem stendur enn. Sérstöku verkefni í leiklistardeildinni var úthlutað þess efnis að gera stutt verk um sögufræga persónu. Skömmu áður hafði hann gengið að eiga Ruby og unnu þau verkefnið saman þar sem þau fjölluðu um skáldið Mark Twain. Leikurinn var byggður upp einsog viðtal og var hún í hluverki spyrils. Hlaut verk þeirra góðan róm og þau ákváðu að lengja sýninguna og bættu við tveimur atriðum úr leikritum eftir Shakesepare, Sem yður þókknast og Hamlet, og héldu síðan í leikferð með tvíleikinn sinn. Sýndu þau aðallega í skólum næstu fjögur árin og sýndu yfir 300 sýningar víðsvegar um Bandaríkin. Þá fæddist þeim hjónum dóttir sem setti óneitanlega strik í sýninguna. Hal Holbrook var hins vegar orðinn svo heillaður af Mark Twain að hann ákvað að halda áfram með kallinn og búa nú til einleik. Voru margir til að letja hann til verksins og töldu það algjöra fásinnu sögðu einfaldlega að einleikur um Twain mundi aldrei halda út og hvað þá rata á tröppur Broadway. Holbrook var ungur og óþekktur leikari og hafði því í raun engu að tapa enda kom í ljós að einmitt þessi leikur Mark Twain Tonight varð leið hans uppá stjörnuhiminn leikhússins og kvikmyndanna. Það sem varð endanlega til að sannfæra Holbrook um verkið var þegar hann sá annan einleikara Emyn Williams í kassaeinleik hans um annan skáldjöfur Charles Dickens. Þarna í leikhúsinu mættust gamli og nýji tíminn því það má segja að Hal Holbrook hafi tekið við af Williams í einleikjaheiminum þeir hafi svona skipt öldinni jafnt á milli sín. Því í dag eru þeir félagar meðal helstu einleikara síðustu aldar sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa gert einleiki um fræg skáld.

Eftir uppljómunina í leikhúsinu lagðist Holbrook í mikla rannsóknarvinnu í leit sinni að Mark Twain. Hann las allt sem skáldið hafði ritað sögur jafnt sem ritgerðir og bréf. Hann hlustaði á upptökur af upplestri skáldsins og hitti fólk sem hafði upplifað slíkra lestra með Twain. Blaðagreinar um Twain voru lesnar spjaldanna á milli sérstaklega þær sem fjölluðu um upplestrakvöld skáldsins einnig var mikill akkur í þeim ljósmyndum sem til voru af Twain. Jafntframt fór hann á helstu staði sem skáldið hafði dvalið og komið á. Eitt helsta einkenni Mark Twain var að hann reykti vindil, vandamálið var hins vegar að Holbrook reykti ekki. En hvað gera menn ekki fyrir listina og þegar hann er Twain þá einfaldlega reykir hann vindil. Hann lagði jafnframt mikla áherslu á að gerfi skáldsins væri sannfærandi. Holbrook samdi leikinn sjálfur og ákvað að hafa skáldið á besta aldri eða um 70 ára einmitt þegar hann hafði samið sín bestu verk og var á hátindi ferils síns. Hann sjálfur var rétt um þrítugt þegar hann hóf glímuna við Twain og tók það hann um 4 tíma að fara í gerfið förðun og hár. Það skondna er hins vegar að þessi tími hefur svo gott sem ekkert styst þrátt fyrir að hann sé nú orðinn eldri en skáldið er í leiknum sjálfum. Leikmynd leiksins er hins vegar mjög einföld skrifborð, stóll, skrifpúlt, bréf og bækur er grunnurinn. Hér er því hrein og klár sýning þar sem leikarinn er í aðalhluverki, tæknin er í algjöru lágmarki og rólegt að gera hjá ljósamanni aðeins ljós upp í upphafi leiks og ljós niður þegar tjaldið er dregið frá. Í verkinu flytur Twain m.a. brot úr þekktustu verkum sínum og bregður sér í hlutverki þekktustu persónna sinna m.a. Stikkisberjafinn. 

Aðferðin sem Hal notaði við gerð þessara atriða var á þá leið að hann bjó fyrst til atriði t.d. um Stikkisberjafinn sem hann sjálfur og svo fór hann í hlutverk Twain og lék atriðið sem skáldið. Þannig er sýningin byggð upp og er það alltaf persónan Twain sem túlkar þó aðrar persónur komi við sögu. Hal Holbrook tók nú að sýna einleikinn um Mark Twain í kvöld! og hafði þann háttinn á að útbúa stutta þætti sem hann reyndi á áhorfendum hverju sinni. Síðan fór hann heim með viðtökur áhorfenda í huga og breytti, stytti og bætti eftir því sem gónendum líkaði. Þann vann hann verkið áfram uns það var orðið um tveir og hálfur tími. Hann lét hins vegar ekki staðar numið því næstu áratugina bjó hann til ný atriði og í dag á hann um 20 tíma efni. Holbrook getur því breytt verkinu mjög auðveldlega allt eftir viðtökum áhorfenda hverju sinni. Eiginlegur frumfluttningur á Mark Twain Tonight! var 19. mars árið 1954 í State Teachers College í Pensilvaníu. Nokkrum árum síðar eða árið 1959 nánar tiltekið 6. apríl sýndi hann leikinn í fyrsta sinn á Off-Broadway leikhúsi. Enn síðar eða árið 1966 var hann kominn á Broadway og þar hefur hann leikið allar götur síðan svo og um allan heim.

Hann fór leikferðalag um Evrópu og sýndi m.a. á Edinborgarhátíðinni. Holbrook hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir Mark Twain leikinn sinn árið 1966 hlaut hann bæði Antoinette Perry verðlaunin og Tony verðlaunin nokkru síðar bættist Emmy styttan í safnið. Það hefur líka verið heilmikil útgerð í kringum verkið, það hefur verið tekið upp fyrir sjónvarp, brot úr leiknum var gefið út á hljómplötum og einnig hefur það verið gefið út á bók. Það má segja að Hal Holbrook hafa hrundið af stað nokkurskonar einleiknu æði þar sem viðfangsefnið var ævi þekkra persóna. Fjölmargir leikarar sýndu snilli sína James Earl Jones lék Paul Robeson, James Whitmore Will Rogers og einnig lék hann tvo fyrrum forseta Truman og Roosevelt, Christopher Plummer túlkaði leikarann John Barrymore og Vincent Price brá sér í hlutverk írska skáldsins Oscar Wilde. Velgengni verksins varð líka til þess að aðrir leikarar horfðu jafnvel með gróða í augunum á persónuna Mark Twain. Fjölmargir einleikir hafa verið gerðir um skáldið sumir hafa verið það líkir verki Holbrook að hann hefur þurft að fara fyrir dómstóla bara til að tryggja það að áhorfendur séu ekki að kaupa köttinn í sekknum. Meðal þeirra sem hafa gert einleiki um Twain eru Ray Reinhardt í An Evening with Mark Twain og Bill McLinn í Mark Twain Himself. Langflestir kollegar Holbrook segja þó og viðurkenna að hann sé hinn eini sanni Mark Twain. Hal Holbrook er enn að sýna Mark Twain Tonight! sýningar eru nú komnar yfir 2000 og þess má geta að hann hefur þegar bókað nokkrar sýningar árið 2008. Þeir sem til þekkja segja að Halbrook sé jafnvel uppá sitt besta einmitt núna enda eldist gamalt verk jafnan vel já alveg einsog gott rauðvín.

Einleikurinn Mark Twain Tonight! átti stóran þátt í að koma Hal Holbrook á framfæri fyrst í leikhúsinu og svo í kvikmyndunum en hann hefur leikið í fjölmörgum vinsælum ræmum. Í leikhúsinu vakti hann athygli fyrir leik sinn í verkum á borð við Incident at Vichy eftir Arthur Miller og í Man of La Mancha. Hann hefur leikið í fjölmörgum sjónvarpsþáttum m.a. í Lincoln þar sem hann lék Abraham sjálfan en þátturinn var byggður á þekktu verki Carl Sandburg. Holbrook lék í sjónvarpssápunni The Brighter Day einnig í þáttum á borð við West Wing og Sopranos. Fyrsta kvikmynd Holbrook er The Group frá árinu 1966. Aðrir kvikmyndir eru m.a. The People Next Door, 1970, og Magnum Froce, 1973, með Clint Eastwood. Þremur árum síðar túlkaði hann hinn sögufræga Deep Throat í kvikmyndinni All the President’s Men, 1976. Eftir það í Capricorn One, 1978, The Star Chamber, 1983, Wall Street, 1987, Fletch Lives, 1989, Judas Kiss, 1998, The Majestic, 2001, og kvikmynd Sean Penn Into the Wild, 2007.
Þriðja eiginkona Hal Holbrook er leikkonan Dixie Carter sem hann gekk að eiga 27. maí árið 1984. Þau hafa sameinað krafta sína m.a. í sjónvarpsseríunni Designing Women og í tvíleiknum Southern Comforts. Hal Holbrook hefur komið víða við á sínum listamannsferli en einleikur hans Mark Twain Tonight! er það verk sem mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. 

GEISLADISKAR
Mark Twain Tonight 

DVD
Mark Twain Tonight, 1999