Hjálmar goggur eða Pilsa-Hjálmar
Höfundur:
Elfar Logi
Nafn Hjálmars Þorsteinssonar hringir kannski ekki mörgum bjöllum hjá fólki í dag. Kappinn sá var hæfileikamaður sem flakkaði milli bæja og skemmti fólki. En hér á öldum áður voru menn sem flökkuðu um Ísland og þar sem þeir áðu unnu þeir sér fyrir fæði og húsnæði. Voru einskonar farandverkamenn en fengu þó sjaldan aura fyrir starfið aðeins þak yfir höfuðið og mat í askinn. Sumir flakkaranna voru einnig skemmtikraftar, sögðu sögur í baðstofunni á kvöldin eða tóku lagið. Þeir sem kunnu eitthvað í listinni gerðu sumir hverjir sérstaklega út á það og þáðu greiðslu fyrir skemmtunina. Dagskrá þessara íslensku flökku einleikara var fjölbreytt þeir sögðu sögur, fóru með þulur og vísur og léku á alls oddi.
Einn þekktasti flökku einleikari 19 aldar á Íslandi er án efa Hjálmar Þorsteinsson er kallaður var Hjálmar goggur þar sem hann hafði bogið nef líkt fuglsgoggi. Einnig hafði hann viðurnefnið Pilsa-Hjálmar sökum þess að hann sagðist ekki geta sofið nema hafa pils ofan á sér. Frægð hans má kannski rekja til þess að hann er sagður vera fyrirmyndin af Hjálmari tudda í skáldsögu Jóns Thoroddsen Maður og kona. Jón samdi einnig ásamt fleirum ljóðabálk um Hjálmar er nefnist Goggsraunir en vísur skáldsins má finna í kvæðasafni hans. Fjallað er um Hjálmar í vestfirskum sögnum og þar er honum lýst þannig ,,að hann hafi verið svartur á brún og brá, fyllilega meðalmaður á hæð, heldur óliðlegur í vexti, en grannvaxinn, toginleitur í andliti, með hýjungs-skegg á vöngum og nefið beygt niður að framan.”
Hjálmar var frá Arnarfirði og á fyrstu árum æviskeið síns þótti hann ekki vera neitt öðruvísi en önnur börn. Þegar hann náði fjögura ára aldri þótti hins vegar breytingar á háttum og hegðun piltsins töldu margir hann jafnvel vera umskipting. Ekki þótti hann þó vera heimskur bara hagaði sér öðruvísi en aðrir. Hann lagðist fljótlega í flakk um Vestfirðina þó einkum um sína heimasveit í Arnarfirði. Birtist hann mönnum á bæjunum þannig að hann bar askinn á bakinu og næturgangið fyrir. Mönnum líkaði nú ekki allskostar vel gesturinn sumir buðu honum ekki gistingu en aðrir tóku við honum í skamman tíma. Ekki þótti hann góður í skapi og var orðaforðinn frekar dónalegur einkum ef honum mislíkaði eitthvað. Það var svosem ekki undarlegt að bændur tækjum þessi gesti ekki fagnandi því hann þótti ekki duglegur til vinnu einna helst var hægt að nota hann í að mala korn.
Æskan var hrædd við Hjálmar og kvenfólkið var ekki heldur spennt fyrir honum. Sem er ekki að undra því hann átti það til að vilja ,,sjúga blessuð konubrjóstin.” Hann var hinsvegar trúr í sumum verkum og meira að segja var hægt að senda trúa honum fyrir bréfi með peningum í sem ætti að sendast með á einhvern bæinn. Þegar vel lá á Hjálmari skemmti hann heimilsfólki með leik og söng. Hann þótti stálminnugur kunni m.a. alla Passíusálmana utanbókar sem og margar vísur. Sögur voru í miklu uppáhaldi hjá honum og sátu svo fastar í kollinum að honum nægði að heyra söguna einu sinni til að geta farið með hana nánst orðrétta strax á eftir.
Eftir að hafa flakkað um tíma um Vestfirði hélt hann norður í land en þar var honum tekið fálega og sendur til baka í sína heimasveit. Eigi líkaði honum allskostar vel í heimahéraði og kvaraði við Jón Thoroddsen sýslumann í Haga á Barðaströnd um hve fálega honum væri tekið á heimaslóð. Sýslumaður kemur honum þá fyrir á Litlu Eyri sem dugði þó skammt því aftur kvartaði Hjálmar til sýslumanns um illa viðgjörning þar á bæ. Eftir það brá sýslumaður á það ráð að koma honum fyrir viku og viku í senn á bæjum í Arnarfirði. Hjálmar stóð einnig fyrir sérstökum skemmtunum á bæjum í firðinum þar sem áhorfendum var gert að greiða fyrir skemmtunina sérstaklega. Kostaði áheyrnin 4 skildinga á mann og fékk hann ósjaldan marga til að hlýða á sig.
Einu sinni gortaði hann sig af því að hann hafi fengið fleiri áheyrendur en presturinn í Otradal. Klerkur fékk 4 en Hjálmar 20 fleiri. Í heimildum er sagt frá því að Hjálmar hafi skemmt eitt sinn í Selárdal fjölda manns sem allir greiddu 4 skildinga fyrir sýninguna. Sat Hjálmar þá uppi á elhússtrompnum í Selárdal og flutti þar m.a. kvæðið Í fögrum dal hjá fjallabláum straumi. Eins og áður var getið samdi Jón Thoroddsen sýslumaður vísur um Hjálmar og nefndi þær Goggsraunir. Lærði Hjálmar braginn utanbókar og flutti á ferðum sínum. Hjálmar Þorsteinsson andaðist á Bíldudal 3. október 1876, 67 ára að aldri.
Hér er brot úr Goggsraunum eftir Jón Thoroddsen:
Á Suðurfjarða sveit eg var
settur á hrafnaþingi;
marg konar písl eg þoldi þar -
þar um er vert eg syngi. -
Bíldudals illa undirþjóð
upp úr mér tíðum kreysti blóð;
Sanda-Jón sárt mig deyddi.
Hröklast varð eg að Haga inn,
á holdi og sálu margdrepinn,
valdsmann um vöndinn beiddi.
Að Litlueyri eftir það,
örlög mig flytja gjörðu;
Gvendur - Ásbjörn mig undir trað,
aðrir mig hröktu og börðu.
Hangiket verstu hámerar
hafa varð eg til snæðings þar,
horvatn og hrossafeiti
Þó eg sé drepinn í þriðja sinn,
þar fer eg ekki í bæinn inn,
Hjálmar meðan eg heiti.
Á þessu sumri þoldi' eg oft
þjáning og meðferð harða;
gauðrífa á mér gerðu hvoft,
gárungar Suðurfjarða.
Vigtarmaðurinn vestra þar
verst skemmdi í mér tennurnar,
minning hans lifi lengi.
Lágeyrð* hljóta að vakna við
og veita skálkum engin grið,
en eg þá alla flengi
*Hjálmar kallaði landslögin þessu nafni.
Enn úr Goggsraunum. Höfundur ókunnur:
Þá heimkominn að Haga eg var,
hörmungar lægði gjóstinn.
Endurnæringu eg fékk þar
við opin stúlku brjóstin.
Valdsmaður líka vel mér tók
vanæru minni sæmdir jók,
sýsluböðul mig setti.
Eg hýddi djarft, svo hrundi blóð.
Hingað, hingað öll dára-þjóð,
að eg þá eins leiðrétti.
Heimildir:
Vestfirzkar sagnir. Safnað hefir Helgi Guðmundsson. 1. bindi. Bókaverzlun Guðm. Gammalíelssonar 1933 – 1937