Julie Harris
Höfundur:
Elfar Logi
Ameríska leikkonan Julie Harris hefur komið víða við og verið ötul bæði á leiksviðinu, í sjónvarpi og í kvikmyndum. Hún hefur verið tilnefnd tíu sinnum til Tony verðlauna, oftar en nokkur annar, og helming Tonyana er nú að finna á heimli hennar. Hún hefur auk þess fengið þrjú Emmy verðlaun og eina tilefningu til Óskars verðlauna. Leikhúsið hefur alltaf verið hennar uppáhalds vinnustaður enda hefur hún þar unnið marga leiksigra. Þar af eru einir fjórir einleikir sem allir tengjast heimsþekktum rithöfundum. Þekktastur þessara leikja er The Belle of Amherst um skáldkonuna Emily Dickinson.
Julie Ann Harris fæddist í Grosse Pointe í Michigan 2. desember 1925. Móðir hennar var hjúkrunarkona en húsbóndinn starfaði í banka. Bæði höfðu þau áhuga á leikhúsinu og voru dugleg að sækja sýningar og fékk dóttirin þá að fylgja með. Þar með var tónninn sleginn og löngu síðar sagði hún frá því að hún var sannfærð um að leikhúsið væri hennar staður: ,,Leiksviðið! Ég vissi strax að þar vildi ég vera. Ég elska það.” Hún þreytti frumraun sína á Broadaway í leikritinu It’s a Gift þegar hún var á tvítugs aldri en verkið var aðeins sýnt í skamman tíma. Næstu árin lék hún í ýmsum verkum í leikhúsinu allt frá Shakespeare til Synge án þess þó að vekja sérstaka athygli leikhúsgesta. Tækifærið kom fjórum árum síðar þegar hún brá sér í hlutverk 12 ára stúlku í verkinu The Member of the Wedding sem sló í gegn. Leikstjóri leiksins, Harold Clurman, hafði þetta að segja um Harris: Hún er einsog nunna sem hefur sviðið fyrir kirkju.” Tveimur árum síðar, 1952, var verkið kvikmyndað þar sem Harris túlkaði sama hlutverk og uppskar tilnefningu til Óskarverðlauna. Þetta ár varð hennar því í leikhúsinu brá hún sér í hlutverk Sally Bowles í I Am a Camera og nú var hún ekki bara tilnefnd til verðlauna heldur fór hún með Tony leikhúsverðlaunin með sér heim og þeim átti eftir að fjölga á næstu árum. Árið 1955 lék hún í kvikmyndaútgáfu verksins sem var undanfari söngleiksins Cabaret einsog margir vita. Þetta ár var einnig hennar því hún lék í hinni sögufrægu mynd East of Eden frumraun James Dean í leikstjórn meistara Elia Kazan. Myndin sópaði að sér öllum helstu kvikmyndaverðlaunum þó okkar kona hafi ekki fengið verðlaun að þessu sinni. Julie Harris var nú búinn að sanna sig á tveimur stöðum bæði í kvikmyndaheiminum og á Broadway. Meðal kvikmynda sem hún hefur leikið í má nefna Requiem for a Heavyweight, 1962, hrollvekjan The Haunting, 1963, Reflections in a Golden Eye, 1967, The Hiding Place, 1975, The Bell Jar, 1979, Gorillas in the Mist, 1988 og gamanmyndina Housesitter, 1992. Einnig hefur hún leikið í fjölda sjónvarpsþátta má þar nefna Tarzan, Bonanza og síðast en ekki síst sápuna vinsælu Knots Landing þar sem hún lék Lilimae Clements í einum 159 þáttum. Hún hefur jafnframt leikið í fjölda sjónvarpsmynda og ófáum sjónvarpsupptökum af þekktum leikverkum s.s. Hamlet og Brúðuheimilið. Fyrir frammistöðu sína í sjónvarpi hefur hún hlotið 3 Emmy verðlaun. Þá eru ótalin leikafrekin á Broadway þar sem hún hefur leikið í fjölda verka síðustu áratugina má þar nefna leikverk á borð við Lark þar sem hún lék Jóhönnu af Örk, The Last of Mrs. Lincoln, The Glass Menagerie, Driving Miss Daisey og Rommý. Mörgum leikaranum þætti nú ekki slæmt að geta boðið uppá svona upptalningu af leikferlinum en enn er margt eftir. Því nú víkur sögunni að einleikjum Julie Harris.
Julie Harris var mikill aðdándi skáldkonunnar Emily Dickinson. Snemma byrjaði hún að ferðast milli staða og lesa uppúr verkum hennar einnig var upplestur hennar á völdum ljóðum tekinn upp og gefin út á hljómplötum. Rithöfundurinn William Luce hafði verið að vinna að handriti af leiknum sjónvarpsþætti um Dickinson en þegar á hólminn var komið höfðu framleiðendur ekki áhuga á verkinu og allt fór í strand. Nokkru síðar barst talið að því að fá Julie Harris til að túlka ljóðskáldið á leiksviði og þá í einleik. Luce leist ekki á blikuna og svaraði stutt og snubbótt: ,,Ég kann ekki að búa til einleik fyrir leikkonu.” Julie Harris hafði líka sínar efasemdir um verkefnið hún óttaðist þó ekki það að standa ein á leiksviðinu heldur það að þurfa að læra allan þennan texta það þyrfi að lengja æfingatímabilið jafnvel í ár bara til að ná því. Þriðji maðurinn bættist nú við hópinn en það var gamanleikarinn Charles Nelson Reilly. Var hann fenginn í leikstjórnina þrátt fyrir að mörgum undraðist það val þar sem hann var jú gamanleikari og hér var heilmikil dramatík á ferðinni. Hins vegar var það vitað að skálkonan hafði húmor enda kom það í ljós að Reilly var réttur maður á réttum stað og kom skopinu inní uppfærsluna og sannaði sig um leið sem leikstjóra. Næstu vikurnar vann þríeikið sameiginlega að einleik um Emily Dickinson sem var gefið nafnið The Belle of Amherst. Verkið er byggt að dagbókum, bréfum og verkum Dickinson og í sýningunni leikur Harris ekki bara skáldið heldur 14 aðrar persónur. Þar sannaðist hið fornkveðna að sígandi lukka sé best því ekki voru viðtökur sérlega góðar né miklar á frumsýningu sem fór fram vorið 1976. Áfram var samt haldið og stefnan sett á fjögurra vikna sýningartörn á Broadway. Vikurnar fjórar urðu hins vegar að fimm mánuðum og áhorfendur jafnt sem rýnendur lofuðu Harris og verkið. Á Tony verðlaunahátíðinni kom fáum á óvart að Harris fengi styttuna fyrir túlkun sína á Dickinson. Julie Harris ferðaðist víða um heiminn með einleikinn sem var bæði kvikmyndaður fyrir sjónvarp og gefin út á hljómplötu. 25 árum eftir frumflutning verksins kom þríeikið saman að nýju og Harris lék nokkrar sýningar af einleiknum þá orðinn 75 ára gömul en hafði engu gleymt. Enn voru áhorfendur og rýnendur heillaðir af verkinu og Harris. Fjölmargar leikkonur hafa fetað í fótspor hennar enda er verk Luce heillandi og hefur verið þýtt á fjölda tungumála og leikinn um heim allan þó ekki hér á Íslandi enn sem komið er.
Vinsfangsefni næsta einleiks var einnig skáldkona og að þessu sinni var það Charlotte Bronte. Verkefnið á sér þó nokkurn aðdraganda en Harris hafði fengið tilboð frá útvarpsleikhúsi um að búa til leikverk til fluttnings. Hún vildi ekki semja verkið sjálf og leitaði til félaga Luce um að búa nú til verk um aðra skáldkonu, Chrlotte Bronte. Hann brást vel við og vildi búa til leik fyrir nokkra leikara en ekki einleik. Harris brást ekki vel við því og sagði einfaldlega:,,Nú, þá geri ég þetta ekki.” Þá var það ákveðið og einleikurinn var fluttur í útvarpinu. Næst var gerð sjónvarpsmynd og eftir það var gerður einleikur fyrir leiksvið einsog Harris hafði reyndar alltaf dreymt um. Félagi þeirra Reilly gekk í liðið en hann var þó ekki einn við leikstjórnina því hann hafði Kristoffer nokkurn Tabori sér til aðstoðar. Einleikurinn Bronte var frumsýndur árið 1983 og fór eftir það sigurför um heiminn og var m.a. sýndur í Japan.
Nokkrum árum síðar fékk hún leikskáldið Donald Freed sem hafði þá samið nokkra einleiki til að búa til einleik um Soniu Tolstoy eiginkonu rússneska skáldsins Leo. Leikurinn nefnist The Countess og var frumsýndur árið 1986.
Næsta viðfangsefni Harris var danska skáldkonan Karen Blixen. Hana langaði til að gera henni skil á leiksviðinu og réð William Luce í þriðja sinn til að vinna með sér. Útkoman var stórkostlegur einleikur Lucifer’s Child sem fjallar um Isak Dinesen, skáldanafn Blixen, þegar hún kemur heim frá Afríku en því tímabili hafð verið vel lýst í kvikmyndinni Out of Africa. Áhorfendur hittu nú skáldkonuna í heimalandinu nánar tiltekið í Runstedlund. Lucifer’s Child var frumflutt í Duke háskólanum þaðan lá leiðin til Kennedy Center og loks 4. apríl 1991 á Broadway. Enn á ný var Harris tilnefnd til Tonyverðlauna fyrir leik sinn. Einleikurinn fór síðan í sjónvarp og var myndin frumsýnd 1995.
Julie Harris er án efa ein ástsælasta leikkona Bandaríkjamanna enda er hún í miklum metum þar eða einsog George W. Bush komst að orði þegar henni voru veitt sérstök heiðursverðlaun þann 5. desember árið 2005: ,,Það er erfitt að ýmynda sér Ameríska leiksviðið án þessa andlits, raddar og hina óþrjótandi hæfileika Julie Harris. Hún hefur notið mikillar hamingju í vinnu sinni og við og allur heimurinn þökkum fyrir að hafa fengið að njóta þess með henni.” Þó ferillinn hafi verið glæstur hefur einkalífið ekki verið á sömu lund en hún hefur þrívegis gengið í það heilaga. Julie Harris er enn að störfum hefur m.a. verið kynnir í mörgum sögulegum heimildarþáttum fyrir sjónvarp.
BÆKUR
The Belle of Amherst, 1991
Lucifer's Child, 1992
DVD
The Belle of Amherst, 2004