Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Marcel Marceau

Höfundur:

Elfar Logi

Einn þekkasti látbragðsleikari síðustu aldar er án efa Frakkinn Marcel Marcau. Hann skapaði trúðinn Bip sem ferðaðist um heiminn og fékk fólk á öllum aldri til að gráta og hlæja rétt einsog alvöru trúðum sæmir. Marcau var frumkvöðull og hugsjónamaður sem stuðlaði að eflingu látbragðslistarinnar meir en nokkur annar hefur gert.

Marcel Marcau eða Marcel Mangel einsog hann hét réttu nafni fæddist í Strassbúrg í Frakklandi 22. mars 1923. Sagan segir að Marcau hafi ákveðið að leggja látrbragðlistina fyrir sig þegar hann starfaði sem kennari í ónefndum barnaskóla. Hann innritaðist í leiklistarkóla Charles Dullin árið 1946 og var Etieene Decroux meðal kennara hans en Etieene var meðal færustu látbragðsleikara síðustu aldar. Ári síðar hafði Marcau skapað persónu sem átti eftir að fylgja honum allt hans líf. Hér er um að ræða látbragðstrúðinn Bip sem er í ætt við trúða þöglumyndanna þar sem tragíkómíkin ræður völdum. Fyrirmyndin var sótt í meistara Charlie Chaplin sem var í miklu uppáhaldi hjá Marcau alla tíð. Enda var Chaplin mikill látrbragðsleikari. Einnig má nefna aðra áhrifavalda s.s. Buster Keaton, Harry Langdon og MarxBræður. Einleikir Bips voru í raun fólgnir í hinni sígildu list trúðsins, Listinni að misheppnast. En þó tekst allt á endanum einsog sönnum trúðum sæmir þarf bara þolinmæðina og kannski hvernig sé hægt að leysa málin. Marcau samdi fyrst stuttan einleik með Bip og var honum svo vel tekið að hann hófst handa við að gera fleiri. Sumir einleikja hans voru einskonar látbragðsæfingar þar sem stutt atriði var gert í kringum ákveðna athöfn og hétu þættirnir nöfnum einsog The Mask Maker, Walking Against the Wind og The Cage. Af einleikjum Marcau má nefna The Bird Keeper, The Overcoat sem var byggt á sögu Gogol Death Before Dawn og síðast en ekki síst Youth, Maturity, Old Age and Deth þar sem hann spannar ævi einnar manneskju allt frá vöggu til grafar á aðeins örfáum mínútum. Marcau var óþreytandi við að ferðast um heiminn sem Bip og hvar sem hann kom streymdi fólk í leikhúsið. Hann gerði einnig bækur um Bip sem seldust einsog heitar lummur. Marcel Marceau sýndi tvívegis hér á landi fyrst árið 1966 og svo tveimur árum síðar. Líkt og annarsstaðar heilluðust Íslendingar að Bip.

Árið 1949 stofnaði Marcel Marceau eigin látbragðsleikhóp og var það eini leikhópur sinnar tegundar á þeim tíma. Flokkurinn setti upp fjölmargar sýningar sem nutu vinsælda um heim allan næstu áratugi. Síðasta leikferð leikhópsins var farin árið 2005 með verkið Fantasy Tales. Sýningin var tvískipt því í fyrrihlutanum var Bip einn og sér og í þeim seinni var allur leikflokkurinn á fjölunum.  Árið 1978 setti hann á laggirnar eigin leiklistarskóla École International de Mimiodrame. Tæpum tveimur áratugum síðar eða árið 1996 stofnaði hann Marceau Foundation sem höfðu það hlutverk að efla látbragðslistina í Bandaríkjunum. Marceau ritaði einnig nokkrar bækur má þar nefna The Story of Bip og Marcel Marceau Alphabet Book.

Enn er ógetið kvikmynda- og sjónvarpsleiks Marcel Marceau. Hann lék prófessor að nafni Ping í kvikmyndinni Barbella sem skartaði Jane Fonda í aðalhlutverki. Í kvikmyndinni First Class lék hann hvorki fleiri né færri en 17 hlutverk. Hann var einnig í stjörnumpríddri mynd Mel Brooks Silent Movie sem var þögul einsog nafnið gefur til kynna að undanskildu einu orði sem var sagt og að hætti meistara Brooks lét hann látbragðsleikarann um það. En hann sagði upp á frönsku: ,,Non". Hann túlkaði síðan nirfilinn Skrögg í Jólaævintýri Dickens fyrir BBC sjónvarpsstöðina.

Marcel Marceau hlaut fjölda verðlauna og viðurkenninga á ferli sínum. Meira að segja heill dagur er helgaður og nefndur eftir honum en það er í New York en árið 1996 ákváðu borgaryfirvöld að 18. mars væri hér eftir Marcel Marceau dagurinn.
Marcel Marceau hafði mikil áhrif á þróun og gengi látbragðsleiksins um heim allan. Ekki síður markaði hann djúp spor í einleikjasöguna enda á látbragðsleikurinn vel heima í einleiknum einsog sjá má í dag.

Marcel Marceau andaðist 22. september árið 2007.