Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Ný listgrein: Mono-Drama

Árið 1947 er um margt merkilegt í einleikjasögu Íslands því þá kom Steingerður Guðmundsdóttir til landsins eftir að hafa stúderað listina á erlendri grundu í nokkur ár. Hún ákvað að kynna þetta sérstaka listform hér á landi og setti á svið einleikssýningu í Iðnó og vonaðist til að geta kynnt formið sem best. Ekki var þetta þó neinn stórviðburður í listalífinu á þeim tíma en vakti þó athygli Halldórs Laxness sem ritaði mjög vinsamlega um sýninguna sem og Steingerði í einu dagblaðana. Alþýðublaðið birti frétt um þessa fyrstu einleikssýningu Steingerðar þann 4. maí 1947. Greinin er birt hér í heild sinin, enda stórmerkileg í hinni íslensku einleikjasögu:

 

Ný listgrein: ,,Mono-Drama" kynnt í fyrsta sinn hér í Reykjavík
Steingerður Guðmundsdóttir skólaskálds sýnir sex leikþætti eftir helgina

Ný íslensk listakona gefur Reykvíkingum kost á að kynnast nýrri listgrein innan leiklistarinnar, sem á erlendu máli nefnist Mono-Drama, en hún segir að sumir kalli ,,Eins manns leikhús".
Þessi unga listakona heitir Steingerður Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar skólaskálds og Ólínu konu hans. Hún sýnir þætti úr sex leikritum í leikhúsinu, og er frumsýning 8. þessa mánaðar.
Þættirnir, sem hin unga leikkona sýnir, eru úr ,,Romeo og Júlía", eftir Shakespeare, úr "Frúin á hafinu" eftir Ibsen, úr ,,Máfurinn" eftir Chekov, úr Heimleiðin eftir Steingerði Guðmundsdóttur og úr Sankti Jóhanna eftir Shaw.
Kennari Steingerðar vestan hafs, T. Komisarjevesky prófessor, hefur útbúið þættina fyrir ,,Mono-Drama" og teiknað búninga. Frú Gracelle í New York hefur saumað búningana en Kristín Thoroddsen og Steingerður Guðmundsdóttir hafa annast þýðingar á leikþáttunum.

Steingerður Guðmundsdóttir stundaði nám í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1941 - 1943 og lék Önnu í ,,Orðinu" eftir Kaj Munk. Haustið 1943 hélt hún til Ameríku og innritaðist í ,,American Academy of Dramatick Art" í New York og hlaut þar ókeypis kennslu um skeið. Samhliða því námi sótti hún tíma hjá Mikhail Mordkim balletmeistara og nam þar einkum látbragðslist (mono-drama). Næsta haust átti hún að koma fram í sýningu hjá Mordkim, úr því varð ekki því Mordkim lést þá um stumarið. Steingerður gerðist síðan nemandi hjá Komisarjevesky sem er einn af frægustu leikstjórum heimsins, síðan hann starfaði við þjóðleikhúsið í Moskva. Hann stofnaði þar sitt eigið leikhús. Hjá Komisarjevesky stundaði hún nám í tvö ár fram á sumarið 1946, en þá hélt hún til Svíþjóðar og Bretlands þaðan heim snemma í vetur.
Prófessor Komisarjevesky hefur undirbúið leiksýninguna að öllu leyti, nema hvað Steingerður og frú Kristín Thoroddsen hafa þýtt þættina á íslensku.
(Alþýðublaðið 4. maí 1947)