Ruth Draper
Höfundur:
Elfar Logi
Einn mesti einleikari tuttugustu aldar og mikill áhrifavaldur er bandaríska leikkonan Ruth Draper. Hún samdi alla einleiki sína sjálf og flutti þann fyrsta aðeins níu ára að aldri en alls voru leikir hennar um 40 talsins. Ruth Draper hefur haft mikil áhrif í gegnum tíðina. Leikskáldið George B. Shaw sagði eftir að hafa séð hana á sviði að þetta væri ,,ekki leikur þetta væri lífið". Aðrir listamenn sem hafa dáð list hennar eru m.a. leikkonurnar Katharine Hepburn og Lily Tomlin og tónlistarmaðurinn Tom Waits. Hér verður aðeins gert lítilega grein fyrir þessari einstöku einleikjaleikkonu.
Ruth Draper fæddist 4. desember árið 1884 í Manhattan í Bandaríkjunum. Hún hneigðist snemma til leiklistar og hafði góða og skilningsríka áhorfendur í fjölskyldunni. Þegar hún var níu ára samdi hún einleik þar sem í aðalhlutverki var klæðskeri fjölskyldunnar. Allt eftir það var leiklistin hennar líf og yndi. Í upphafi sýndi hún aðallega á heimilum fólks og einnig til styrktar góðum málefnum. Fyrir þessar sýningar þáði hún ekki borgun en stundum var gaukað að henni skartgripum í þakklætisskyni. Það var ekki fyrr en árið 1920 þegar hún var á 36 aldursári að hún hóf feril sinn sem atvinnuleikkona en þá sýndi hún einleik í London nánar tiltekið í Aeolian Hall leikhúsinu við frábærar undirtekir. Ruth var komin á beinu brautina og helgaði sig leikhúsinu allar götur síðan. Hún var mikil karakterleikkona og voru persónur hennar sterkar og höfðu jafnframt skírskotun til samtímans. Umgjörð einleikja hennar var sáraeinföld. Litlir sem engir leikmunir í mesta lagi stóll og borð og einfaldur búningur. Ef fleiri en ein persóna komu við sögu í leiknum sem var reyndar algengt í verkum hennar þá setti hún einfaldlega á sig hatt eða jafnvel bara sjal og var þá komin í gerfi annarar persónu. Hún þótti einnig mikill látbragðsleikari og átti auðvelt með að líkja eftir persónum sem fólk þekkti í daglega lífinu. Einleikir Ruth voru um 20 mínútna langir og sýndi hún 5 til 6 einleiki á kvöldi. Í einleikjagallerýi sínu átti hún um 40 einleiki af þeim má nefna leikina The Italian Lesson, A Class in Greek Poise, The Actress og A Church in Italy. Því miður voru leikir hennar ekki teknir upp fyrir sjónvarp en hún fór þó í hljóðver og voru allnokkrir leikir teknir upp. Rétt er að geta þess að nýlega voru gefnir út tveir diskar með þessum leikjum. Þeir heita Ruth Draper and Her Company of Characters: Selected Monologues og More Selected Monologues og fást á www.amazon.com. Ruth Draper var óþreytandi við að sýna leikina sína og ferðaðist um heim allan. Það er með ólíkindum hve víða hún fór miðað við samgöngur þess tíma en leiðin lá um alla Evrópu, Bandaríkin og bara um heim allan. Hún var bókstaflega óstöðvandi enda efnaðist hún vel. Hún gleymdi þó aldrei þeim sem minna máttu sín og sýndi ósjaldan til styrktar góðum málefnum. Þann 29. desember 1956 lék Ruth Draper sinn síðasta einleik. Það var í Playhouse leikhúsinu. Hún andaðist um nóttina á heimili sínu.
Heimasíða um Ruth Draper www.ruthdraper.com
BÆKUR
The Art of Ruth Draper, Morton Dauwen Zabel, 1960
The Letters of Ruth Draper: Self - Portrait of an Actress, 1999
The World of Ruth Draper: A Portrait of an Actress, 1999
GEISLADISKAR
Ruth Draper and Her Company of Characters: Selected Monologues, 2000
More Selected Monologues, 2000