Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Steingerður Guðmundsdóttir

Höfundur:

Elfar Logi

 

Fáir íslenskir listamenn hafa unnið jafnötulega að einleikjaforminu hér á landi og Steingerður Guðmundsdóttir. En hver var hún? Spyrja sjálfsagt margir. Það er óhætt að segja að Steingerður sé einn af mörgum listamönnum okkar sem alltof lítið hefur verið fjallað um.

Steingerður Guðmundsdóttir var fjölhæf listakona og er einkum þekkt fyrir ljóð sín. Hún ritaði einnig leikrit, starfaði sem leikkona og leiklistargagnrýnandi. Hún fæddist á Ísafirði 12. október 1912 dóttir Guðmundar Guðmundssonar, er kallaður var Skólaskáld, og Ólínu Þorsteinsdóttur. Listin var fyrirferðamikil á æskuheimilinu og ekki leið á löngu þar til Steingerður steig dans við listagyðjuna. Seinna átti hún eftir að minnast gengina listamanna í ljóðum sínum má þar nefna Kjarval, Tómas Guðmundsson og Önnu Borg. 

Þegar Steingerður var aðeins 11 ára, 1922, steig hún fyrst á leiksvið. Það var í leikritinu Himnaför Hönnu litlu eftir Gerhard Hauptmann hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Leikhúsið heillaði hana strax og hún hóf síðar nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar, leikara, en áður hafði hún stúderað höggmyndalist hjá Einari Jónssyni en varð að hætta því sökum heilsubrests. Að loknu námi hjá Lárusi lá leiðin til New York í The American Academy of Dramatic Arts. Einnig stundaði hún balletnám og látbragðsleik í Bandaríkjunum. Auk þess kynnti hún sér leikhúslíf í Bretlandi og Svíðþjóð. Á námsárunum vaknaði áhugi hennar á einleikjaforminu og reyndar var hún hvött til þess sérstaklega af einum kennara sinna. Með einleikinn í farteskinu kom hún heim til Íslands og kynnti fyrir landsmönnum. Vorið 1947 sýndi hún frumsaminn einleik í Iðnó og ritaði Halldór Laxness leikdóm um sýninguna og sagði þar m.a..: Ég er sannfærður um að íslenska leikhúsinu bætist góður liðsmaður í Steingerði Guðmundsdóttur. Samviskusemi, smekkvísi og nákvæmni virðist henni í blóð borið, og hún hefur í list sinni feingið skólun sem ætti að geta orðið undirstaða alvarlesgs liststarfs. Engin sem sá leik hennar á föstudagskvöld þarf að efast um að hún hafi þetta eina present gáfna móti 99 prósentum vinnu sem útheimtist til að verða listamaður.” Lítið framhald varð á einleikjasýningum hennar í leikhúsi þrátt fyrir hrós skáldsins á Gljúfrasteini. Hún snéri sér hins vegar að útvarpinu og flutti þar marga frumsamda einleiki næstu árin. Hlutverk hjá atvinnuleikhúsunum tveimur urðu hinsvegar fá aðeins tvö hjá Leikfélagi Reykjavíkur og eitt í Þjóðleikhúsinu. 

Árið 1974 gaf hún út einleikjasafnið Börn á flótta sem inniheldur sjö af leikjum hennar. Í formála fylgir hún bókinni úr hlaði með því að segja stuttlega frá einleiksforminu og segir þar m.a.: ,,Listform þetta er mjög knappt, þar sem aðalatriðin geta einvörðungu komið fram - og aukapersónur þurfa að birtast skýrar og lifandi fyrir hugskoti áhorfenda - eða hlustenda - gegnum túlkun og einbeitingu einnar persónu. Yevreynoff (rússneskur leikhúsmaður sagður höfundur einleiksformsins -innsk.ritara) heldur því fram að þetta sé afar fullkomið leikform, m.a. vegna þess, að það veiti leikhússgestum óvenju gott tækifæri til þess, að auðga ímyndunaraflið, þar geti áhorfandinn á auðveldan hátt orðið þátttakandi í leiknum. Hann setur það sem frumskilyrði við sköpun einleiksþátta, að aðalpersónan túlki sálræna reynzlu sína. Jafnframt þarf hún að endurspegla viðbrögð annarra persóna, við þeirri reynslu, persóna sem ekki eru á sviðinu." Þessi bók Steingerðar er löngu uppseld en með heppni má fá hana í fornbókabúðum og eins ætti hún að vera til á betri bókasöfnum um land allt. Einsog áður var getið er Steingerður einkum þekkt sem ljóðskáld. Ljóðabækur hennar eru alls sjö auk ljóðasafnsins Bláin, frá árinu 2004, er inniheldur úrval ljóða Steingerðar. Hún samdi einnig nokkur leikrit og komu tvo þeirra út á bók, Rondo og Nocturne. Steingerður starfaði sem leiklistargagnrýnandi á seinni hluta sjöunda áratugsins og þóttu dómar hennar mjög vandaðir. Ekki voru þó allir á eitt sáttir um skrif hennar frekar en oft er þegar um leikdóma er að ræða. Einu leikhúsanna sárnaði það mikið að Steingerði var neitað um frímiða í leikhúsið. Þegar blöðin hættu að birta gagnrýni hennar hélt hún samt áfram að rýna í verk leikhúsanna og sendi dómana beint í viðeigandi leikhús. Steingerður giftist aldrei og eignaðist ekki börn. Steingerður Guðmundsdóttir andaðist 12. júlí 1999.

Heimildir:

Bláin, JPV, 2004

Börn á flótta, 1974, Steingerður Guðmundsdóttir

Kristbjörg Þorkelína saga Kristbjargar Kjeld leikkonu, 1995, Jórunn Sigurðardóttir

Lárus Pálsson leikari, 2008, Þorvaldur Kristinsson

Safn til sögu íslenskrar leiklistar og leikbókmennta 1. bindi, 1998, ritstjóri Jón Viðar Jónsson

Bækur
Börn á flótta, 1974