Um skaðsemi tóbaksins
Höfundur:
Elfar Logi
Rússneska leikskáldið Anton Tsjekhov samdi einleik sem hefur notið mikilla vinsælda. Leikurinn nefnist Um skaðsemi tóbaksins og kom fyrst út árið 1886 en nokkrum árum síðar eða árið 1902 var hann gefinn út að nýju í endurbættri gerð og hefur sú útgáfa verið flutt síðan. Enska útgáfa verksins kom út í bókinni The Unknown Chekhov, 1954. Fimm árum síðar birtist verkið á íslensku í Tímariti Máls og Menningar í september 1959 í þýðingu Geirs Kristjánssonar.
Einleikurinn Um skaðsemi tóbaksins gerist í félagsheimili á landsbyggðinni þar sem Ivan Ivanovich Nyukhin hyggst flytja fyrirlestur Um skaðsemi tóbaksins. Reyndar var það eiginkona hans sem fyrirskipaði honum að halda þennan fyrirlestur og þá þurfti nú ekkert að ræða það neitt frekar. Engu skipti þó hann sjálfur væri reikingamaður. Í upphafi gefur hann gestum strax ljóst að þetta verði þurr, vísindalegur og fræðilegur fyrirlestur og tekur sérstaklega fram að þeir sem ekki hafa áhuga á slíku megi bara hafa sig á brott. Hann kemst hins vegar ekkert áfram í umræðuefninu því ávallt fer umræðan yfir í samskipti hans við konu sína. Hún rekur tónlistarskóla og heimavist fyrir stúlkur þar sem hann þarf að ganga í öll störf bæði kennslu við skólann sem og þá neyð að þurfa að borða stafla af pönnukökum þar sem alltof margar pönsur höfðu verið bakaðar fyrir heimavistarstúlkurnar. Þannig hlaðast sögurnar af slæmum hag Ivan Ivanovich í sambúðinni við sranga eiginkonu sína. Eftir því sem á leikinn líður espist hann hinsvegar upp og fer í uppreisnarhug gegn eiginkonu sinni. Hyggst kasta öllu frá sér og vera frjáls fjarri öllu böggi konu sinnar. Hann vill bara vera einn og gleyma öllu sem hafi gerst. Hefja nýtt líf. En mitt í öllum hamaganginum akkúrat er hann hefur espað sjálfan sig upp, rifið sig úr frakkanum og traðkað á honum tilbúin að hefja nýtt líf án konunnar. Þá sér hann einhvern í sviðsvængnum. Í ljós kemur að þetta er eiginkonan margumtalaða. Hann vippar sér í frakkann skundar fremst á sviðið og segir lágt við gesti að biðja þá um að standa nú með sér. Ef konan spyrji um frammistöðu bónda síns eigi þeir að segja að hann ,,hafi komið fram af virðuleik”. Af því sögðu og þar sem kona hans stendur þarna í sviðsvængnum og bíður eftir honum segir hann vel valin lokaorð: ,,Með hliðsjón af því, að í tóbakinu er hræðilegt eitur sem ég nú hef nýlokið að tala um, þá ættu menn ekki undir neinum kringumstæðum að reykja, og ég leyfi mér, að mínu leyti, að vona að þessi fyrirlestur minn ,,Um skaðsemi tóbaksins” geri sitt gagn. Ég hef lokið máli mínu. Dixi et animam levavi!” (Hneigir sig og gengur tígulega út af sviðinu).
Einleikurinn Um skaðsemi tóbaksins hefur margoft verið sýndur hér á landi m.a. af Litla leikklúbbnum árið 2007. Ársæll Níelsson var þá í hlutverki Ivan Ivanovich Nyukhin og Elfar Logi Hannesson leikstýrði og var leikurinn m.a. sýndur á einleikjahátíðinni Act alone á Ísafirði sama ár.
Anton Tsjekhov
Anton Pavlovítsj Tsjekhov fæddist 29. janúar 1860 í Taganrog við Asóvshaf í Rússlandi. Hann var af fátækum ættum, sonur kaupmanns, og varð því sjálfur að fjármagna nám sitt í læknisfræði í Moskvuháskólanum. Það gerði hann m.a. með skrifum, hann samdi smásögur og brandara sem hann seldi síðan dagblöðum og tímaritum. Til gamans má geta þess að bróðir hans hafði einnig gert það sama á sínum tíma. Tsjekhov hugði ekki á stóra sigra á ritvellinum, veðjaði heldur á doktorinn og taldi sig alla tíð vera meiri lækni en skáld. Í rússneskum leikhúsum á þessum árum nutu farsar mikilla vinsælda. Hann hóf því að semja einþáttunga, stutt leikrit, í ætt við farsana nema staðsetti þá í Rússlandi með þarlendum persónum. Meðal fyrstu verka hans er einmitt einleikurinn Um skaðsemi tóbaksins sem fyrst kom út á prenti árið 1886. Ári síðar sendi hann frá sér sitt fyrsta leikverk í fullri lengd, Ivanov. Verkið fékk daprar móttökur og sama má segja um tvö næstu leikrita hans The Wood Demon, 1889, og Máfurinn, 1896. Tsjekhov íhugaði nú alvarlega að segja skilið við leikritaskrif.
Nýtt leikhús, Listaleikhúsið, í Moskvu hafði vakið talsverða athygli og vinsælda á þessum árum. Annar stofnandi leikhússins, Vladimir Nemirovich Danchenko, kom að máli við Tsjekhov og vildi setja Máfinn á svið. Hann hafði sannfært meðeiganda sinn í leikhúsinu hinn unga leikstjóra Konstantin Stanislavskí um að hér væri gott verk á ferðinni og varð úr að Stanislavskí mundi leikstýra. Óþarfi er að fara mörgum orðum um Stanislavskí en hann er einkum þekktur fyrir að hafa þróað hinn þekkta leikstíl/aðferð er kölluð er Meþod. Ófáir leikarar hvíta tjaldsins hafa tileinkað sér þetta form í gegnum tíðina má þar nefna Marlon Brando og Dustin Hoffman. Uppfærsla Stanislavskí á Máfinum var frumsýnd árið 1898 og nú snérist dæmið við því leikurinn sló í gegn. Samstarf þeirra hélt áfram næstu árin. Tsjekhov hætti því við að hætta og sendi frá sér meistaraverkin Vanja frændi, 1899, Þrjár systur, 1901, og síðast en ekki síst Kirsuberjagarðurinn, 1904.
Tsjekhov hafði allt frá námsárunum þjáðst af berklum. Árið 1898 varð hann að flýja kuldann í Moskvu og leita á heitari mið sökum veikinda sinna. Hann hélt því suður á boginn og dvaldi m.a. á Krímskaga. Anton Pavlovítsj Tsjekhov andaðist sex árum síðar þann 15. júlí árið 1904 í þýskalandi aðeins 44 ára að aldri.